Hoppa yfir valmynd
6. nóvember 2013 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Vinnufundur um mótun húsnæðisstefnu til framtíðar

Eygló Harðardóttir félags- og húsnæðismálaráðherra
Eygló Harðardóttir félags- og húsnæðismálaráðherra

Ávarp Eyglóar Harðardóttur, félags- og húsnæðismálaráðherra, við upphaf vinnufundar samvinnuhóps um framtíðarstefnu í húsnæðismálum.
Haldinn í velferðarráðuneytinu 6. nóvember 2013

Sæl öll og velkomin til vinnufundar í velferðarráðuneytinu um stórt og brýnt samfélagsmál sem brennur á mörgum og varðar okkur öll.

Allir þurfa þak yfir höfuðið – það eru algild sannindi og sjálfsögð staðreynd. Því miður eru aðstæður á húsnæðismarkaði hér á landi aftur á móti þannig að margir eiga í erfiðleikum með að útvega sér húsnæði í samræmi við fjárhagslega getu og þarfir.

Þessu verður að bregðast við með raunhæfum aðgerðum til að tryggja íslenskum fjölskyldum bæði val og öryggi þegar kemur að heimilum okkar.

Í samræmi við þingsályktun sem samþykkt var á Alþingi í sumar skipaði ég verkefnisstjórn um framtíðarskipan húsnæðismála. Henni er falið að koma með tillögur að nýju húsnæðislánakerfi, meðal annars með það í huga að tryggja virkan leigumarkað og skilvirk félagsleg úrræði fyrir þá sem þurfa.

Mótun húsnæðisstefnu til framtíðar er stórt verkefni sem verður ekki skipulagt eða unnið af fámennum hópi. Þess vegna ákvað ég strax að setja á fót samvinnuhóp með fulltrúum þeirra fjölmörgu  hagsmunaaðila sem verða að taka virkan þátt í stefnumótuninni eigi hún að verða árangursrík og taka til allra þátta sem máli skipta. Víðtækt samráð við mótun stefnunnar er algjör forsenda að mínu mati til að halda til haga ólíkum sjónarmiðum, tryggja samstöðu um leiðir og gera stefnuna framkvæmanlega.

Ég tel ekki aðeins nauðsynlegt að stefnan sé unnin á þeim breiða samvinnuvettvangi sem hér hefur verið skapaður. Ég vil líka gefa öllum þeim sem áhugasamir eru um stefnumótunarvinnunar kost á að fylgjast með hverju fram vindur og koma á framfæri ábendingum, tillögum og athugasemdum eftir því sem efni standa til.  Þess vegna hefur verið útbúið opið vefsvæði á vef velferðarráðuneytisins sem gefur kost á þessu og ég ætla að sýna ykkur hér á eftir.

Soffía Eydís Björgvinsdóttir, formaður samvinnuhópsins, mun leiða vinnuna sem framundan er. Hún mun hér á eftir gera grein fyrir því hvernig störfum ykkar verður háttað, skipulagi og tímasetningum. Ég ætla því ekki að fara náið í praktísk atriði en vil samt koma því skýrt á framfæri að fulltrúar í samvinnuhópnum munu gegna lykilhlutverki í þessari vinnu.

Ákveðið hefur verið að vinnan fari fram í fjórum teymum sem fjalla um aðskilin efni. Í fyrsta lagi hvernig best verði staðið að fyrirkomulagi fjármögnunar almennra húsnæðislána – í öðru lagi hvernig byggja megi upp virkan leigumarkað, - í þriðja lagi hvernig tryggja megi skilvirk félagsleg úrræði í húsnæðismálum og í fjórða lagi umfjöllun um það hvernig stjórnvöld eigi að koma að því að veita þjónustu í almannaþágu á húsnæðislánamarkaði á afmarkaðan en skýran hátt.

Þessi efni sem ég hef talið hér eru hvert öðru mikilvægara og svörin verða ekki hrist fram úr erminni. Engu að síður legg ég áherslu á að þegar þar að kemur feli afrakstur vinnunnar í sér beinar og fullmótaðar tillögur um úrbætur og aðgerðir en ekki skýrslur með lýsingu á því sem betur mætti fara.

Húsnæðismál og fleiri valkostir í þeim efnum hafa lengi verið mér sérstakt hugðarefni. Ég hef oft furðað mig á því hvað séreignastefna í húsnæðismálum er og hefur lengi verið rótgróin í þankagangi Íslendinga og rýr jarðvegur fyrir önnur búsetuform sem tíðkast þó víða með öðrum þjóðum og hafa gert lengi.

Fyrir skömmu sótti ég ráðstefnu Búseta sem félagið efndi til í tengslum við þrjátíu ára afmæli sitt. Þar rifjaði ég upp hvernig Búseti hefur lifað tímana tvenna á ekki lengri starfsævi en þrjátíu árum og mig langar til að fara stuttlega yfir þá merkilegu sögu hér.

Félagið Búseti var formlega stofnað í nóvember 1983. Aðstæður fólks á húsnæðismarkaði voru skelfilegar á þessum tíma. Glímt var við mestu verðbólguholskeflu Íslandssögunnar en verðbólgan fór í rúm 80% milli áranna 1982 og ´83. Húsbyggjendur og íbúðakaupendur lentu í alvarlegum greiðsluerfiðleikum.

Í þessu umhverfi varð Búseti til en róðurinn var þungur. Í hugum margra virtist aðeins til einn aðalkostur í húsnæðismálum sem var að fólk keypti sér húsnæði ef það gæti undir nokkrum kringumstæðum staðið undir því fjárhagslega – en ef ekki væri hinn kosturinn félagslegt leiguhúsnæði.Annað virtist ekki inni í myndinni, ekkert raunverulegt val var fyrir hendi.

Þeir sem börðust á sínum tíma fyrir tilveru Búseta lögðu alltaf áherslu á að húsnæði samvinnufélaganna ætti að standa öllum opið, óháð tekjuviðmiðum. Þessi hugsun stendur í mínum huga í góðu gildi. Þetta á einfaldlega að vera valkostur sem gerir fólki mögulegt að búa í öruggu húsnæði þótt það vilji ekki leggja út í þá miklu fjárfestingu sem fylgir fasteignakaupum. Sama gildir í mínum huga um leiguíbúðir.

Ég hef rætt um búseturéttarformið sem mér þykir mjög áhugavert og tel nauðsynlegt að skoða hvort hægt sé að styrkja það og efla. Verkefni ykkar er einnig að skoða hvernig megi koma á fót virkum leigumarkaði. Í þeim efnum hafa samtök launafólks lýst ákveðnum skoðunum og vilja til þess að taka virkan þátt í að byggja upp slíkt kerfi, jafnvel með beinni aðkomu að rekstri leigufélaga. Aðkoma sveitarfélaganna skiptir einnig miklu máli. Skipulagsvaldið er í þeirra höndum og þar með ráða þau miklu um áherslur við uppbyggingu húsnæðis, hvar skuli byggt og hvernig, samsetningu og fjölbreytni íbúðarhúsnæðis í einstökum hverfum og svo framvegis.

Það er margt sem þarf að skoða við mótun framtíðarstefnu í húsnæðismálum. Áherslur, lausnir og leiðir að þeim verða afraksturinn af vinnu ykkar og ég bind miklar vonir við þá sýn og tillögur til úrbóta sem frá ykkur koma þegar upp verður staðið.

Í tíð síðustu ríkisstjórnar var ráðist í umfangsmikla vinnu til undirbúnings að mótun húsnæðisstefnu og fyrir liggja ýmsar tillögur og greiningar sem komu út úr því starfi. Þetta efni mun tvímælalaust koma að góðum notum í ykkar stóra verkefni og ég hvet ykkur öll til að skoða gaumgæfilega skýrslur sem komu út í tengslum við þesa vinnu. Eitt af því sem fjallað var um voru leiðir til að jafna húsnæðisstuðning þannig að allir sitji við sama borð, óháð því hvaða búsetuform fólk velur sér. Þetta tel ég mjög mikilvægt mál og raunar sjálfsagt réttlætismál og eina af forsendum þess að fjölga valkostum fólks í húsnæðismálum. Þar verður að huga bæði að vaxtabótum, ekki bara húsaleigubótum. Það hafa líka verið unnar skýrslur um Íbúðalánasjóð sem vert er að skoða, meðal annars skýrsla með tillögum um framtíðarhlutverk sjóðsins sem vert er að benda á.

Ég ætla ekki að leggja ykkur línurnar að öðru leyti en því að hvetja ykkur sem takið þátt í þessu starfi til þess að vera opin fyrir öllum hugmyndum, vera reiðubúin að skoða alla möguleika og útiloka ekkert að óathuguð máli.

Við þurfum fleiri valkosti í húsnæðismálum. Við þurfum aukið öryggi þegar kemur að heimilum okkar, óháð búsetuformi. Við þurfum samstarf og samvinnu allra sem á einhvern hátt geta lagt þessum málum lið.

Verkefnið sem bíður ykkar er stórt og vandasamt. Það er krefjandi og felur í sér margar áskoranir. Eins og ég sagði áðan, þið skuluð nálgast það með opnum huga og síðast en ekki síst hafa hugfast þá miklu ábyrgð sem í því felst. Ef vel tekst til munuð þið eiga þátt í því að skapa traust og gott húsnæðiskerfi til framtíðar sem mun tryggja komandi kynslóðum þau grundvallarmannréttindi að búa við öryggi í húsnæðismálum þannig að allir eigi kost á heimili fyrir sig og sína.

- - - - - - - - - - - - -
(Talað orð gildir)

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum