Hoppa yfir valmynd
10. desember 2013 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Kynningarfundur um þróunarsjóð innflytjendamála

Eygló Harðardóttir félags- og húsnæðismálaráðherra
Eygló Harðardóttir félags- og húsnæðismálaráðherra

Ávarp Eyglóar Harðardóttur, félags- og húsnæðismálaráðherra
Fundur í Iðnó 10. desember 2013

Heil og sæl og verið þið velkomin á þennan fund um þróunarsjóð innflytjendamála og þær áherslur sem lagðar verða við verkefnaval og úthlutun styrkja árið 2014.

Þróunarsjóður innflytjendamála hefur verið starfræktur frá árinu 2007 og hafa um eitt hundrað verkefnið hlotið styrk á þessum tíma. Sjóðurinn hefur úr að spila 10 milljónum króna á ári - og hverju sinni draga stjórnvöld fram ákveðna þætti sem þau telja sérstaklega mikilvæga og því ástæða til að styrkja sérstaklega. Má þar nefna málefni innflytjenda á vinnumarkaði og fræðslu gegn fordómum.

Sjóðurinn gegnir mikilvægu hlutverki fyrir málefni innflytjenda, ekki síst þegar litið er til þess að við höfum hvorki langa né mikla reynslu að baki varðandi móttöku fólks sem er af erlendu bergi brotið. Þetta sést glöggt af tölum, því á árunum 1950 – 2000 var hlutfall innflytjenda af öllum landsmönnum að jafnaði um og innan við 2%. í ársbyrjun 2013 voru innflytjendur og önnur kynslóð innflytjenda um 9,1% af þjóðinni sem er mikil breyting á skömmum tíma.

Það er öllum mikilvægt að vel sé hugað að því fólki sem kemur hingað til lands og aðstæðum þess í hvívetna. Fólk kemur á mismunandi forsendum, sumir vegna atvinnu, aðrir á grundvelli hjónabands, einhverjir einfaldlega í ævintýraleit og svo eru þeir sem hafa þurft að flýja heimkynni sín vegna stríðsátaka eða annarra hörmunga. Allt á þetta fólk sameiginlegt að bera væntingar til hins nýja upphafs á Íslandi og stjórnvöldum ber skylda til að taka vel á móti nýjum þegnum.

Þetta er okkar hlutverk. Við eigum að leitast við að veita innflytjendum tækifæri til jafns við aðra hér landi og gera þeim kleift að taka virkan þátt í samfélaginu. Að mörgu er að hyggja. Við þurfum að tryggja að þeir séu upplýstir um réttindi sín og skyldur til þess að koma í veg fyrir mismunun, það þarf að huga að því hvernig er staðið að því að meta menntun innflytjenda en alltof algengt er að innflytjendur fái ekki tækifæri til þess að nýta menntun sína í störfum við hæfi.

Það er sóun á hæfileikum þegar við nýtum okkur ekki þann auð sem fylgir innflytjendum og það er vanvirða við fólk að hindra það í að leggja af mörkum í samræmi við kunnáttu, færni og vilja.

Það sem er kannski mesta áhyggjuefni mitt núna er staða innflytjendabarna. Það liggur fyrir að börn innflytjenda skrá sig ekki í sama mæli í framhaldsskóla og börn með íslenskan bakgrunn og við verðum að komast til botns í því hvað veldur. Ástæðurnar geta verið ýmsar en við verðum að skilja ástæðurnar og hverju þarf að breyta svo tryggja megi börnum af erlendum uppruna sömu tækifæri til náms og börnum sem eiga íslenska foreldra.

Ég tel að við höfum einstakt tækifæri hér á Íslandi til þess að sinna þessum málaflokki vel. Fjölgun innflytjenda hófst fremur seint hér á landi í samanburði við nágrannaríkin og því getum við nýtt okkur reynslu þeirra – séð hvað gekk vel í þeirra stefnu og hvað hefði mátt betur fara.

Ég sem félags- og húsnæðismálaráðherra tel mikilvægt að vel sé hlúð að þessum málaflokki. Nú er hafinn undirbúningur að gerð framkvæmdaáætlunar í málefnum innflytjenda í velferðarráðuneytinu og verður það í annað sinn sem slík áætlun fer fyrir Alþingi. Í henni verður lögð áhersla á fjölskylduna, samfélagið, menntun og vinnumarkaðinn og er stefnt að því að tillaga til þingsályktunar um framkvæmdaáætlun í málefnum innflytjenda verði lögð fram á vorþinginu. Áherslur sjóðsins ríma við þær áherslur sem lagðar verða í framkvæmdaáætlun í málefnum innflytjenda og þar ber þrjú atriði hæst:

Í fyrsta lagi verður lögð áhersla á að styðja við félög sem hafa það að markmiði að efla virka þátttöku innflytjenda í samfélaginu og vinna að hagsmunamálum þeirra. Félagasamtök eru gífurlega mikilvæg í samfélaginu, ekki síst þau sem vekja athygli á því sem betur má fara fyrir félagsmenn sína. Samtök kvenna af erlendum uppruna hafa unnið gífurlega gott starf í gegnum árin og nýlega fögnuðu þau tíu ára afmæli sínu. Vilji minn stendur til þess að styðja enn frekar við uppbyggingu öflugra félagasamtaka sem vinna að málefnum innflytjenda. Grasrótarsamtök af þessu tagi eru nauðsynleg og geta áorkað miklu með því að vekja athygli á ýmsu sem betur má fara, bera fram tillögur um úrbætur og síðast en ekki síst að veita stjórnvöldum aðhald. Enn sem komið er eru ekki til nein heildarsamtök innflytjenda á Íslandi en hver veit nema að slík samtök geti orðið að veruleika ef frækorn slíkrar hugmyndar finna frjóan jarðveg.

Önnur áhersla sjóðsins í ár er á  þróunarverkefni og rannsóknir sem stuðla að bættri stöðu innflytjenda á vinnumarkaði og vinna gegn langtímaatvinnuleysi. Atvinnuþátttaka meðal innflytjenda á Íslandi hefur vakið athygli en þeir hafa verið mjög virkir á vinnumarkaðinum. Staða þeirra breyttist eftir árið 2008 þegar atvinnuleysið jókst svo um munaði. Byggingariðnaður féll saman á þessum tíma en margir innflytjendur unnu í byggingariðnaði. Þegar kom að atvinnuleit stóðu þeir ekki jafnfætis Íslendingum, ekki síst vegna tungumálaerfiðleika en einnig vegna skorts á tengslaneti.

Við sjáum nú jákvæð teikn á lofti þar sem dregið hefur verulega úr atvinnuleysi á síðustu misserum en  innflytjendur sitja eftir, þótt vissulega hafi ástandið meðal þeirra lagast nokkuð. Í apríl 2013 var atvinnuleysi meðal erlendra ríkisborgara um 10% meðan það var tæplega 4% meðal Íslendinga á skrá hjá Vinnumálastofnun. Aðgerðir til úrbóta í þessum efnum geta snúið að ýmis konar vinnumarkaðsúrræðum en ekki síður aðgerðum sem gera innflytjendum auðveldara fyrir að nýta menntun sína og finna störf við hæfi.

Þriðja áherslan er á rannsóknir og verkefni sem varðar stöðu innflytjenda á húsnæðismarkaðnum. Sterkar vísbendingar eru um að innflytjendur séu hlutfallslega mun fleiri á leigumarkaði en Íslendingar. Eins bendir margt til þess að algengara sé að innflytjendur búi í ósamþykktu leiguhúsnæði en Íslendingar og sömuleiðis að þeir verði frekar fyrir því að brotnir séu á þeim samningar. Hér virðist því brýn þörf á bættri upplýsingagjöf og fræðslu til innflytjenda um réttindi fólks á leigumarkaði.

Góðir gestir.

Verkefnin eru ærin eins og alltaf. Ég hef nú kynnt megináherslurnar sem lagðar verða til grundvallar við val á verkefnum og ákvörðun um styrki á næsta ári. Ég vonast til þess að fundurinn í dag verði fólki innblástur að hugmyndum um góð og gagnleg verkefni í þágu innflytjenda og betra samfélags fyrir erlenda og hérlenda borgara. – Þakka ykkur fyrir.

 - - - - - - - - - - - - -
(Talað orð gildir)

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum