Hoppa yfir valmynd

Sláturhús og kjötvinnslur

Um slátrun er fjallað í ákvæðum laga um slátrun og sláturafurðir. Tilgangur laganna er að tryggja svo sem kostur er gæði, heilnæmi og hollustu sláturafurða, að þær séu ómengaðar og framleiddar við fullnægjandi hreinlætisaðstæður, að þær séu metnar og flokkaðar eftir tegundum og gæðum og að merkingar og upplýsingar séu réttar. Lög um slátrun og sláturafurðir taka til eftirfarandi þátta:

  • eldi og heilbrigði sláturdýra
  • slátrun, hlutun, úrbeiningu og vinnslu sláturafurða í sláturhúsum
  • framleiðslu á kjötvörum í sláturhúsum og vinnslustöðvum sem vinna sláturafurðir á erlendan markað
  • geymslu og flutning sláturafurða og aðstöðu og meðferð þeirra á útflutningsstað
  • heilbrigðisskoðun og rannsóknir á sláturdýrum og sláturafurðum
  • gæðamat, flokkun og merkingu á kjöti
  • heimaslátraðar afurðir
  • villibráð sem fer til frekari vinnslu í kjötvinnslustöðvum

Löggilding sláturhúsa og kjötvinnslna

Ítarleg ákvæði er að finna í lögum um slátrun og sláturafurðir varðandi útbúnað sláturhúsa, kjötgeymslur og kjötvinnslustöðvar. Sláturdýr sem slátra á til að flytja afurðirnar á erlendan markað eða til dreifingar og neyslu innan lands er skylt að slátra í löggiltu sláturhúsi. Þá skal kæling og frysting afurðanna fara fram í viðurkenndum kælum og frystum og geymsla þeirra í viðurkenndum kæligeymslum og frystigeymslum. Nánari ákvæði um útbúnað húsanna er að finna í reglugerð, en þar er fjallað um gerð og búnað sláturhúsa og kjötvinnslustöðva, lágmarkskröfur varðandi fyrirkomulag, hreinlæti og útbúnað þeirra, rekstur rannsóknastofa, reglur um notkun hreinsi- og sótthreinsiefna og eftirlit með heilsufari starfsfólks. Eigendum lögbýla er heimilt að slátra búfé sínu á sjálfu býlinu til eigin neyslu.

Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra löggildir eftirfarandi húsnæði:

  • Sláturhús
  • Kjötgeymslur
  • Kjötvinnslustöðvar

Svo ráðherra sé heimilt að löggilda framangreint húsnæði þarf að liggja fyrir meðmæli Matvælastofnunar um að húsin séu svo fullkomin að gerð og öllum úbúnaði að hægt sé þess vegna að fullnægja öllum kröfum kröfum um gæði, heilnæmi og hollustu afurðanna. Í löggildingu sláturhúss skal tilgreina hámarksdagsslátrun. Í sláturhúsum og kjötvinnslustöðvum skulu vera löggiltar vogir. 

Löggilding er veitt til fimm ára í senn.

Með umsókn um löggildingu skulu fylgja eftirfarandi upplýsingar um:

  • Fyrirkomulag hússins
  • Staðsetningu hússins
  • Vatnsból
  • Frárennsli
  • Útbúnað
  • Áætlað umfang slátrunar eða annarrar starfsemi
  • Fjölda starfsfólks

Héraðsdýralæknar skoða árlega með ítarlegum hætti húsnæði og búnað sláturhúsa, kjötpökkunarstöðva, kjötfrystihúsa, kjötvinnslustöðva og dreifistöðva, meðferð á afurðunum og innra eftirlit.

Sjá einnig:

Síðast uppfært: 29.1.2022
Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum