Hoppa yfir valmynd

Fjármálamarkaður

Hlutverk skrifstofu fjármálamarkaðar í fjármála- og efnahagsráðuneytinu er að stuðla að virkum fjármálamarkaði þar sem einstaklingum og fyrirtækjum stendur til boða þjónusta og fjármagn sem tryggir vöxt og viðgang hagkerfisins, réttur neytenda er tryggður og staðinn er vörður um fjármálalegan stöðugleika. Verkefni skrifstofunnar eru:

  • Opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi
  • Bankamarkaður
  • Verðbréfamarkaður
  •  Vátryggingamarkaður
  • Greiðslukerfi og greiðsluþjónusta
  • Innstæðutryggingar o.fl./Tryggingarsjóður vegna fjármálafyrirtækja
  • Lífeyrismál
  • Fjármálastöðugleikaráð
  • Gjaldeyrismál
  •  Vextir og verðtrygging

Innlend löggjöf á sviði fjármálamarkaða felur að miklu leyti í sér samræmdar reglur sem gilda á öllu EES-svæðinu. Endurreisn íslenska fjármálakerfisins í kjölfar hruns þess hefur farið fram samhliða viðamikilli endurskoðun Evrópusambandsins á reglum á fjármálamarkaði. Þessum breytingum er ætlað að styrkja fjármálamarkaðinn og auka viðnámsþrótt fjármálafyrirtækja við áföllum. Helstu breytingar sem gerðar hafa verið eru:

  • Gagnger endurskoðun á lögum um fjármálafyrirtæki, meðal annars með auknum kröfum um magn og gæði eigin fjár, könnunar- og matsferli Fjármálaeftirlitsins, eiginfjáraukum og vogunarhlutfalli, heildarendurskoðun reglna um áhættustýringu og nýjum reglum um laust fé og stöðuga fjármögnun fjármálafyrirtækja.
  • Ný löggjöf um endurreisn og skilameðferð fjármálafyrirtækja sem draga á úr líkum á erfiðleikum eða áföllum fjármálafyrirtækja og vernda þannig fjármálalegan og efnahagslegan stöðugleika. Það er jafnframt markmið að komi til slíkra erfiðleika verði neikvæðar afleiðingar sem minnstar, meðal annars með því að tryggja áframhaldandi kerfislega mikilvæga starfsemi og vernda innstæðueigendur en um leið takmarka hættu á að kallað verði eftir framlögum úr ríkissjóði.
  • Ný löggjöf um vátryggingastarfsemi hefur það markmið að efla neytendavernd og tryggja fjármálastöðugleika. Gerðar eru auknar kröfur um gjaldþol vátryggingafélaga, stjórnarhætti þeirra, áhættustýringu og upplýsingagjöf til þess að draga úr líkum á því að vátryggingafélag verði gjaldþrota eða lendi í greiðsluerfiðleikum. Þá eru gerðar meiri kröfur til eftirlitsaðila til að stuðla að stöðugleika.
  • Ný löggjöf um rekstraraðila sérhæfðra sjóða á rætur að rekja til viðbragða við erfiðleikum á alþjóðlegum fjármálamörkuðum 2008-2009 en vandamál tengd slíkum sjóðum voru talin hafa aukið áhættu innan evrópska fjármálakerfisins. Löggjöfinni er ætlað að taka á helstu vandkvæðum á þessum markaði svo sem skorti á heildarsýn yfir lausafjáráhættu og áhættu tengdri vogun sérhæfðra sjóða. Auknar og samræmdar kröfur eru nú gerðar um starfsleyfi, skipulag og eftirlit með rekstraraðilum sérhæfðra sjóða.
  • Á verðbréfamarkaði hafa tekið gildi þó nokkur ný lög, meðal annars um afleiðuviðskipti, miðlæga mótaðila og afleiðuviðskiptaskrár með það markmið að draga úr áhættu sem tengist afleiðusamningum og auka gagnsæi þeirra og um skortsölu og skuldatryggingar sem ætlað er að draga úr óstöðugleika og kerfisáhættu sem slíkum viðskiptum getur fylgt.

Þau verkefni skrifstofunnar sem eru efst á baugi hverju sinni má kynna sér í Samráðsgátt stjórnvalda. Þar er t.d. að finna áform um lagasetningu, drög að lagafrumvörpum og reglugerðum, skjöl um stefnumótun o.fl. Hægt er að senda inn umsögn eða ábendingu við þau skjöl sem stjórnvöld setja inn í gáttina.

Opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi

Eitt af þremur meginmarkmiðum Seðlabanka Íslands er að stuðla að traustri og öruggri fjármálastarfsemi. Fjármálaeftirlitið, sem er hluti af Seðlabanka Íslands, hefur eftirlit með því að aðilar á fjármálamarkaði fari að lögum og reglum. Fjármálaeftirlitið starfar samkvæmt lögum um opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi og eru ákvarðanir þess ekki kæranlegar til ráðherra.

Fjármálaeftirlitið hefur meðal annars eftirlit með starfsemi viðskiptabanka, sparisjóða, lána- og verðbréfafyrirtækja, verðbréfamiðlana, lífeyrissjóða, rekstrar- og vátryggingafélaga og kauphalla.

Neytendur geta skotið einkaréttarlegum ágreiningi við fjármálafyrirtæki til úrskurðarnefndar um viðskipti við fjármálafyrirtæki, eða eftir atvikum úrskurðarnefndar í vátryggingamálum, sem vistaðar eru hjá Fjármálaeftirlitinu. Nefndin starfar samkvæmt samkomulagi sem fjármála- og efnahagsráðuneytið, Samtök fjármálafyrirtækja og Neytendasamtökin eru aðilar að og á grundvelli 19. gr. a laga um fjármálafyrirtæki.

Nánari upplýsingar er að finna á vefsvæði nefndarinnar.

Evrópskar eftirlitsstofnanir á fjármálamarkaði

Endurskoðun Evrópusambandsins á umgjörð eftirlits á fjármálamörkuðum í kjölfar áfallsins árið 2008 leiddi til þess að í ársbyrjun 2011 var komið var á fót þremur nýjum eftirlitsstofnunum á evrópskum fjármálamarkaði. Stofnanirnar þrjár eru:

Tilgangur stofnananna þriggja er að tryggja nánara samstarf fjármálaeftirlita aðildarríkja og styðja við einsleita beitingu og túlkun reglna í Evrópu. Við sérstakar aðstæður geta stofnanirnar beitt valdheimildum, t.d. að banna tímabundið eða takmarka ákveðna fjármálastarfsemi eða taka bindandi ákvarðanir í ágreiningsmálum eftirlitsstjórnvalda. Daglegt eftirlit með fjármálafyrirtækjum og mörkuðum er eftir sem áður í höndum einstakra ríkja, að undanskildu eftirliti með lánshæfismatsfyrirtækjum og afleiðuviðskiptaskrám. Samkomulag milli EFTA-ríkjanna og Evrópusambandsins um þessar eftirlitsstofnanir byggist á tveggja stoða kerfi EES-samningsins. Það felur í sér að allar bindandi ákvarðanir á valdsviði stofnananna gagnvart Íslandi, Noregi og Liechtenstein verða teknar af Eftirlitsstofnun EFTA og hægt er að bera þær undir EFTA-dómstólinn.

Til viðbótar við stofnanirnar þrjár var Evrópska kerfisáhætturáðinu (e. European Systemic Risk Board (ESRB)) komið á fót. Meginverkefni þess er að meta og vakta kerfisáhættu og greina ógnir sem kunna að steðja að fjármálastöðugleika innan ESB.

Sjá einnig:

Síðast uppfært: 16.11.2023
Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum