Hoppa yfir valmynd

Verkefni

Helstu verkefni Sjálfbærs Íslands

  • Stefnumótun: Grænbók

    Fyrsta stóra verkefni Sjálfbærs Íslands var að hefja vinnu við mótun stefnu um sjálfbæra þróun. Fyrsta skrefið í þeirri vinnu var að taka saman stöðu mála í plagginu: „Grænbók um sjálfbært Ísland – stöðumat og valkostir“. Drög að grænbókinni voru unnin í byrjun árs og birt í samráðsgátt stjórnvalda 17. apríl 2023. Forsætisráðherra boðaði alls til 8 kynningarfunda víða um land auk fjarfundar til að kynna efni grænbókarinnar og leita álits almennings á verkefninu.

    17 umsagnir bárust á tímabilinu 17. apríl - 29. maí 2023 og voru þær birtar jafnóðum. Unnið var úr þeim ábendingum  og niðurstöður samráðsins birtar 03. júlí 2023.

  • Stefnumótun: Hvítbók

    Á haustmánuðum hófst vinna við „Hvítbók um sjálfbært Ísland – Drög að stefnu Íslands um sjálfbæra þróun til 2030“. Stýrihópur Sjálfbærs Íslands vann ásamt starfsfólki drög sem send voru Sjálfbærniráði til rýni 2. nóvember 2023. Á fundi ráðsins þann 15.nóvember 2023 voru drögin kynnt og um þau fjallað. Óskað var umsagna og ábendinga frá meðlimum ráðsins og bárust 9 umsagnir á tímabilinu 7. nóvember 2023 - 2. janúar 2024.

    Verið er að vinna úr innsendum umsögnum og stefnt er að því að birta uppfærð drög í samráðsgáttinni í febrúar 2024.

  • Landrýniskýrsla

Ísland, líkt og öll aðildaríki Sameinuðu þjóðanna, samþykkti  heimsmarkmið um sjálfbæra þróun árið 2015 og hefur því skuldbundið sig til þess að innleiða markmiðin hérlendis. Aðildaríkin eru hvött til þess að skila svokölluðum landrýniskýrslum (e. Voluntary National Review, VNR) um  vinnu að heimsmarkmiðunum á nokkurra ára fresti, eða allt að  þrisvar sinnum á gildistíma markmiðanna, til ársins 2030. Ísland skilaði og kynnti slíka skýrslu árið 2019 og kynnti forsætisráðherra hana á ráðherrafundi SÞ um sjálfbæra þróun (e. High Level Political Forum, HLPF) í New York í júlí 2019. Önnur skýrsla Íslands var unnin á vormánuðum og kynnt á HLPF í júlí 2023.

Skýrslan var unnin í víðtæku samstarfi við stýrihóp Sjálfbærs Íslands og meðlimi Sjálfbærniráðs. Ráðuneytin mátu árangur landsins fyrir hvert heimsmarkmiðanna og skilgreindu tækifæri og áskoranir. Frjáls félagasamtök gáfu einnig sitt mat á framgangi allra markmiða og voru báðar niðurstöðurnar birtar samhliða í skýrslunni. Þá áttu nokkrir aðilar sérkafla í skýrslunni, en þar má nefna Samband íslenskra sveitafélaga sem birti niðurstöður könnunar um heimsmarkmiðavinnu allra sveitafélaga landsins, Sjálfbærnistofnun Háskóla Íslands um úttekt á  smitáhrifum Íslands, ungmennaráð heimsmarkmiða Sameinuðu þjóðanna og Landsamband ungmennafélaga.

Í kynningunni á HLPF tóku þátt fulltrúi forsætisráðuneytisins, fulltrúi Félags Sameinuðu þjóðanna og ungmennafulltrúi Íslands hjá Sameinuðu þjóðunum á sviði sjálfbærrar þróunar. Í tengslum við kynninguna stóð Sjálfbært Ísland fyrir hliðarviðburði sem fjallaði um smitáhrif, þ.e. þau áhrif sem Ísland hefur á framgang heimsmarkmiðanna í öðrum löndum. 

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum