Hoppa yfir valmynd

Barnahjálp SÞ (UNICEF)

Almennt

Hlutverk Barnahjálpar Sameinuðu þjóðanna er að bæta hag barna, ungs fólks og kvenna. Barnasáttmáli Sameinuðu þjóðanna er grunnurinn að starfi stofnunarinnar. Styrkur UNICEF felst í kraftmiklu starfi á vettvangi í 190 löndum, bæði í þróunarríkjum og með starfsemi landsnefnda.

UNICEF hefur mikla reynslu af starfi meðal ungs fólks og kvenna sem miðar að því að tryggja félagsleg réttindi þeirra. Starfsemi UNICEF er í eðli sínu þverfagleg en mikil áhersla er lögð á verkefni á sviði heilbrigðismála, menntamála og neyðaraðstoðar, auk þess sem umbætur í hreinlætismálum eru á forgangslista stofnunarinnar.

Efst á baugi

Í gildi er rammasamningur milli íslenskra stjórnvalda og Barnahjálpar Sameinuðu þjóðanna (UN Children´s Fund, UNICEF) sem veitir heildstæða umgjörð um samstarfið. Í byrjun árs 2022 hækkuðu íslensk stjórnvöld kjarnaframlög til UNICEF um yfir 50% og nema þau nú 230 m.kr. á ári. Kjarnaframlög efla UNICEF og gerir stofnuninni kleift að haga starfseminni í takt við stefnumótun og þarfir hverju sinni, og forgangsraða vinnunni  svo tryggja megi réttindi og bæta kjör barna um heim allan.

Utanríkisráðuneytið hefur frá 2019 stutt við verkefni á vegum UNICEF sem lýtur að stuðningi við flóttafólk og viðtökusamfélög þeirra í norðurhluta Úganda. Nýjum áfanga verkefnisins var hrint af stað árið 2023 á sviði vatns- og hreinlætismála, með áherslu á aðstöðu í skólum og heilbrigðisstofnunum. Verkefnið leggur sérstaka áherslu á samþættingu mannúðaðstoðar og þróunarsamvinnu.

Í lok árs 2022 var skrifað undir samning við UNICEF í Síerra Leóne, nýju samstarfslandi Íslands í þróunarsamvinnu, um samþætt verkefni í sjávarbyggðum. Verkefnið tekur til bættra lífskjara á heildstæðan hátt, með áherslu á vatn, hreinlæti, umhverfismál og málefni barna. Framkvæmd verkefnisins er í samstarfi við sjávarútvegsráðuneyti Síerra Leóne.

Þá hafa íslensk stjórnvöld stutt við samstarfsverkefni UNICEF og UNFPA um afnám limlestinga á kynfærum kvenna og stúlkna frá árinu 2011 og er nú í gildi samningur frá árinu 2022 sem gerður var til þriggja ára. Verkefnin eru starfrækt í 17 löndum, þar á meðal í Úganda einu af samstarfsríkjum Íslands í þróunarsamvinnu. Markmið verkefnisins er að vinna gegn hvers kyns limlestingum á kynfæri kvenna, hvort sem þau eru fjarlægð í heild sinni eða að hluta til, auk allra áverka sem koma til sökum slíkra aðgerða.

Ísland  styður einnig jafnréttissjóð UNICEF sem leggur áherslu á menntun stúlkna í óstöðugum ríkjum, sérstaklega tæknimenntun. Samningur þess efnis var gerður árið 2022 til þriggja ára en markmið jafnréttissjóðs UNICEF eru í takt við áherslu á menntun í stefnu um alþjóðlega þróunarsamvinnu Íslands.

Þá veita íslensk stjórnvöld jafnframt framlög til heilsutengds verkefnis UNICEF í Palestínu og hefur gert allt frá árinu 2011. Verkefni UNICEF í Palestínu snýr að mestu að ljósmæðraeftirliti með mæðrum í viðkvæmri stöðu og hefur verkefni gefið góða raun samkvæmt úttektum.

Þá var rammasamningur utanríkisráðuneytisins og landsnefndar UNICEF gerður að nýju árið 2023 til þriggja ára. Fjöldi verkefna falla undir aðgerðaáætlun samningsins og má þar helst nefna verkefni sem snúa að kynningarstörfum, fræðslu og fjáröflunarherferðum.

Sjá einnig:

Síðast uppfært: 29.6.2023
Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum