Hoppa yfir valmynd

Tvísköttunarsamningar

Með tvísköttun tekna og eigna er átt við álagningu skatts á sama skattstofn hjá sama skattaðila í tveimur ríkjum á sama tímabili. Markmið tvísköttunarsamninga er að koma í veg fyrir slíka tvísköttun á tekjur og eignir en jafnframt að vinna gegn skattasniðgöngu. Samningsfyrirmynd Íslands við gerð tvísköttunarsamninga er að mestu leyti sniðin eftir samningsfyrirmynd Efnahags- og framfarastofnunarinnar í París (OECD). 

Tvísköttunarsamningar öðlast gildi að þjóðarrétti þegar samningarnir hafa verið fullgiltir af báðum samningsríkjum og koma oftast til framkvæmda í upphafi næsta almanaksárs eftir fullgildingu.

Nýlegar breytingar á sviði tvísköttunarsamninga

Í kjölfar samþykktar á BEPS aðgerðaráætlun (skammstöfun fyrir Base Erosion and Profit Shifting; í íslenskri þýðingu barátta gegn rýrnun skattstofna og tilfærslu hagnaðar), sem OECD ásamt G20 ríkjunum stóð fyrir, fór m.a. fram endurskoðun á markmiðum og tilgangi tvísköttunarsamninga. Þar bar hæst að finna lausn til að vinna gegn þeirri þróun sem átt hefur sér stað, einkum meðal fjölþjóðafyrirtækja, þar sem skattaskipulagning þeirra er með þeim hætti að skattgreiðslur fyrirtækjanna verða mjög lágar ef þá einhverjar. Fjölþjóðafyrirtæki nýta glufur sem verða til vegna mismunandi skattareglna í viðkomandi ríkjum og samspili tvísköttunarsamninga. Slíkt leiðir til þess að tilfærsla verður á hagnaði fyrirtækjanna frá háskattasvæðum til lágskattasvæða.

Hvað tvísköttunarsamningar varðar er lausnin í raun tvíþætt. Annars vegar hefur eldri tvísköttunarsamningum verið breytt með marghliða samningi (MLI, e. Multilateral Instrument) sem setur ákveðnar lágmarkskröfur á grundvelli BEPS. Ákvæði MLI ganga framar tilgreindum ákvæðum í tvísköttunarsamningi ríkja sem hafa komist að sameiginlegri niðurstöðu um að beita MLI. Fjármála- og efnahagsráðherra staðfesti MLI fyrir hönd Íslands í byrjun júní 2017. Hins vegar er um að ræða ýmsar afleiddar breytingar af BEPS og MLI sem hafa ratað í samningsfyrirmynd OECD og sem aftur hefur áhrif á samningsfyrirmynd Íslands til framtíðar. Meginmarkmið breytinganna er að taka af öll tvímæli um að tvísköttunarsamningum er ekki ætlað að ná fram lágmarks- eða engri skattlagningu eða tvískattlagningu heldur standa gegn skattasniðgöngu af hvers kyns tagi. Ný samningsfyrirmynd OECD var gefin út í byrjun árs 2018. Vinna við endurskoðun á íslensku samningsfyrirmyndinni með hliðsjón af væntanlegum breytingum OECD og ýmsum breytingum á innlendri skattalöggjöf er þegar hafin.

Ísland hefur í samstarfi við önnur ríki gert samræmda texta til leiðbeiningar um hvernig MLI hefur áhrif á tvísköttunarsamninga

Hlekkir á síðu OECD um tvísköttunarsamninga, BEPS og MLI: 

Listi yfir gildandi tvísköttunarsamninga

Síðast uppfært: 8.12.2022
Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum