Hoppa yfir valmynd

Umgengni og umgengnisréttur

Þegar foreldrar barns búa ekki saman á barnið á rétt á umgengni við það foreldra sinna sem það býr ekki hjá. Umgengni snýst um samveru og önnur persónuleg samskipti barns við foreldri. Báðum foreldrum er skylt að sjá til þess að barn njóti umgengni við foreldrið sem það býr ekki hjá.

Foreldri á einnig rétt á umgengni við barnið sitt og því ber jafnframt skylda til að sinna umgengni við það. Réttur til umgengni er ekki háður forsjárskipan og hann er því fyrir hendi hvort sem foreldrar fara sameiginlega með forsjá barnsins eða ekki. Umgengnisréttur foreldris og barns nýtur sérstakrar verndar í samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins og mannréttindasáttmála Evrópu.

Hver getur óskað eftir umgengni?

Það eru fyrst og fremst foreldrar barns sem geta óskað eftir að umgengni verði ákveðin. Ef foreldri barns er látið, foreldri getur ekki sinnt umgengnisskyldum sínum eða ef umgengni er mjög takmörkuð, getur barn átt rétt á umgengni við nána vandamenn þess foreldris , t.d. afa og ömmu. Barn getur einnig átt rétt á umgengni við aðra nákomna barni, það gæti t.d. átt við um fyrrum stjúpforeldri barns sem verið hefur í nánum tengslum við barn á meðan viðkomandi var í hjúskap eða sambúð með kynforeldri.

Réttur til umgengni við aðra en foreldra er ekki jafn afdráttarlaus og réttur barns til umgengni við foreldri. Meta þarf í hverju máli hvort umgengni við aðra en foreldra sé til hagsbóta fyrir barn.

Samningar um umgengni

Langalgengast er að foreldrar semji um umgengni við barn. Umgengnissamningar geta bæði verið munnlegir og skriflegir en ef foreldrar óska eftir því að sýslumaður staðfesti samning þeirra um umgengni verður samningurinn að vera skriflegur. Staðfesting sýslumanns á umgengnissamningi hefur þá þýðingu að hægt er að krefjast þess að tilteknum þvingunarúrræðum verði beitt ef umgengni er tálmað.

Sýslumaður getur neitað að staðfesta samning um umgengni ef hann telur samninginn í andstöðu við hagsmuni barns. Sýslumaður getur áður en hann tekur ákvörðun um staðfestingu samnings óskað eftir áliti sérfræðings í málefnum barna á því, hvort fyrirkomulag umgengni teljist í andstöðu við þarfir barnsins.

Úrskurðir um umgengni

Ef foreldrum tekst ekki að koma sér saman um umgengni getur hvort þeirra sem er óskað eftir að sýslumaður ákveði umgengnina. Ákvörðun sýslumanns er byggð á því hvað barninu, sem í hlut á, er fyrir bestu. Það eru því þarfir og hagsmunir barnsins sem ráða því hvernig fyrirkomulag umgengni er ákveðið en ekki þarfir og langanir foreldra. Undirstöðuatriði er að taka mið af þörfum barns fyrir góða umönnun, jákvæð tengsl, stöðugleika, öryggi, ró og jákvæðan aga, enda á umgengni að nýtast barninu og vera því til góðs.

Málsmeðferð sýslumanns miðar að því að rannsaka mál og fá fram nauðsynlegar upplýsingar til grundvallar ákvörðun um umgengni. Báðir foreldrar fá við meðferð málsins kost á að tjá sig við sýslumann og leggja fram gögn kröfum sínum til stuðnings. Barnið á rétt á að tjá sig vegna málsins hafi það aldur og þroska til.

Áhersla er lögð á að leita sátta með aðilum umgengnismáls, sjá hér neðar um sáttameðferð.

Við rannsókn máls og mat á því hvað barni í tilteknu máli telst fyrir bestu getur sýslumaður leitað liðsinnis sérfræðings í málefnum barna. Sýslumaður getur meðal annars falið sérfræðingnum að kynna sér viðhorf barns og gefa skýrslu um það og falið honum að gefa umsögn um tiltekin álitaefni. Sérfræðingar þeir sem sinna þessu hlutverki kunna að vera fastir starfsmenn sýslumanna og eru til dæmis félagsráðgjafar eða sálfræðingar.

Úrskurði sýslumanna um umgengni má kæra til dómsmálaráðuneytisins og er kærufresturinn tveir mánuðir frá dagsetningu úrskurðar.

Sjónarmið við ákvörðun á umgengni

Við mat á því hvað barni er fyrir bestu og hve mikil umgengni á að vera koma ýmis atriði til skoðunar. Hér eru talin upp nokkur atriði sem skipta máli:

Tengsl barns við umgengnisforeldri - Sterk tengsl mæla oftast með mikilli umgengni.

Aldur og vilji barns - Aldur barns skiptir verulegu máli þegar umgengni er ákveðin. Ef um mjög ung börn er að ræða má t.d. almennt ætla að umgengni vari skemur en þegar um stálpuð börn er að ræða og stundum er ákveðið að mjög ung börn gisti ekki hjá umgengnisforeldri. Áður en sýslumaður ákveður umgengni á hann að veita barni sem hefur náð nægilegum þroska færi á að tjá sig um málið nema það geti haft skaðleg áhrif á barnið eða það teljist þýðingarlaust. Annað hvort ræðir sýslumaður sjálfur við barn eða felur öðrum að gera það. Þegar um stálpuð börn er að ræða skiptir vilji þeirra verulegu máli við úrlausn máls. Almennt yrði ekki úrskurðað um tiltekið fyrirkomulag umgengni gegn eindregnum vilja barns sem komið er á unglingsár.

Búseta foreldra - Þegar foreldrar búa hvor í sínum landshluta þarf oftast að ákveða umgengni með öðru sniði en þegar foreldrar búa í sama sveitarfélagi.

Hætta á ofbeldi - Sýslumanni ber að meta hættu á að barnið, foreldri eða aðrir á heimili barnsins hafi orðið eða verði fyrir ofbeldi. Ofbeldi og vanvirðandi háttsemi á heimili barns hefur almennt skaðlegar afleiðingar á andlega og líkamlega heilsu barns og þroska þess í víðum skilningi. Það er því mikilvægt að huga að þessari hættu við ákvörðun umgengni.

Samskipti foreldra - Líta ber til þess sérstaklega hvort ágreiningur eða samskipti foreldra séu líkleg til að koma í veg fyrir, hindra eða draga úr möguleikum barns til að alast upp við þroskavænleg skilyrði. Umgengni á að vera barni til góðs og má ekki vera barni of erfið, vera því þjáning eða ógna tilfinningalegum og félagslegum þroska þess.

Hvernig umgengni var hagað áður - Hafi ákveðið fyrirkomulag verið á umgengni er tekið mið af því en þó verður að skoða vel hvers vegna krafist er breytinga á því umgengnisfyrirkomulagi sem hefur verið ríkjandi.

Gagnkvæm umgengni - Ef systkini búa hvort hjá sínu foreldrinu verður að gera þeim mögulegt að umgangast hvort annað.

Hvað á umgengni að vera mikil?

Engar reglur eru í barnalögum um hve mikil umgengni eigi að vera. Umfang og fyrirkomulag ræðst af mörgum þáttum, sbr. það sem nefnt er hér að framan, og verður umgengni ákveðin í hverju máli með hliðsjón af þörfum barnsins sem í hlut á.

Í kjölfar aukinnar áherslu á þátttöku beggja foreldra í uppeldi og umönnum barna sinna hefur umfang umgengni almennt aukist frá því sem var. Í vaxandi mæli hafa foreldrar til dæmis kosið að velja jafna umgengni. Með því er átt við að barn dveli jafnmikið hjá báðum foreldrum, til dæmis í viku í senn hjá hvoru foreldra.

Fram til 1. janúar 2013 var litið svo á að stjórnvöldum væri ekki heimilt að ákveða umgengni með þessu sniði í ágreiningsmáli heldur yrði að taka mið af því að barnið ætti fasta búsetu hjá öðru foreldra sinna, dveldi þar að jafnaði en færi til hins foreldrisins á tilteknum tímum. Algengt var – og er - að umgengni sé ákveðin aðra hverja helgi, en misjafnt hve löng dvölin er í hvert sinn og þarf ekki að takmarkast við hefðbundna merkingu orðsins „helgi“. Er miðað við þarfir barns og aðstæður í hverju tilviki fyrir sig. Í sumum tilvikum varir umgengni þannig frá föstudegi til sunnudags, í öðrum tilvikum frá fimmtudegi til þriðjudags, og í enn öðrum tilvikum eitthvað þar á milli.

Með breyttum lögum hefur sýslumaður fengið heimild til þess að ákveða umgengni í 7 daga af hverjum 14 dögum eins og segir nú í barnalögum. Stjórnvöld geta því ákveðið jafna umgengni en það á þó aðeins við þegar sérstaklega stendur á. Jöfn umgengni gerir miklar kröfur til samvinnu foreldra og kemur ekki til álita þegar samstarfsgrundvöllur er alls ekki fyrir hendi. Almennt verður einnig að ætla að grunnskilyrðin fyrir því að jöfn umgengni verði ákveðin séu meðal annars þau að barn hafi náð tilteknum aldri, að barnið gangi í einn skóla og að samfella í félagsstarfi og vinatengslum barns sé tryggð - auk annars.

Þótt lögfest hafi verið heimild fyrir sýslumann að ákveða jafna umgengni í vissum tilvikum verður það enn að teljast meginregla, þegar stjórnvöld leysa úr málum, að barn teljist eiga fasta búsetu og lögheimili hjá öðru foreldra sinna, þar dveljist barnið að jafnaði en fari til hins foreldris síns í umgengni, samkvæmt því sem áður segir.

Til viðbótar við almenna reglubundna umgengni er við það miðað að barn eigi að hafa tækifæri til þess að njóta umgengni við foreldri sem það býr ekki hjá um hátíðir, eins og jól og páska, og í sumarleyfum.

Umgengni undir eftirliti

Sýslumaður getur í úrskurði ákveðið að umgengni skuli fara fram undir eftirliti sérfræðings í málefnum barna. Einungis er gert ráð fyrir að sýslumaður úrskurði eftirlit með umgengni þegar sérstaklega stendur á. Þetta á helst við í tilvikum þar sem ekki er öruggt að fari nógu vel um barn hjá umgengnisforeldri eða þegar miklar deilur og jafnvel átök eru milli foreldra þegar barn er sótt eða því skilað.

Umgengnisréttar nýtur ekki við

Í alveg sérstökum tilvikum getur sýslumaður ákveðið að umgengnisréttar njóti ekki við. Þetta á við ef hann telur að umgengni barns við foreldri sé andstæð hag og þörfum barnsins. Um frávik er að ræða frá grundvallarreglunni um rétt barns og foreldris til umgengni og sterk rök þurfa að liggja til grundvallar slíkri niðurstöðu sýslumanns.

Inntak umgengni ekki ákveðið

Sýslumaður getur hafnað því að ákveða inntak umgengnisréttar. Þetta getur til dæmis átt við í málum þar sem stálpaðir unglingar vilja ekki að umgengni sé ákveðin og vilja ráða sjálfir hvernig umgengni er hagað. Í þessum tilvikum er umgengnisrétturinn sem slíkur fyrir hendi en sýslumaður hafnar því að mæla fyrir um hvernig útfærslan eigi að vera.

Umgengni til bráðabirgða

Sýslumaður hefur heimild til þess að úrskurða um umgengni til bráðabirgða. Hann getur bæði ákveðið að úrskurður til bráðabirgða gildi þar til umgengnismáli, sem hann er með til meðferðar, er ráðið til lykta en getur líka ákveðið að úrskurða um umgengni og að úrskurðurinn gildi í tiltekinn tíma. Þegar hið fyrrnefnda á við tekur sýslumaður upp þráðinn á ný þegar gildistími úrskurðar rennur út og ákveður hvernig skuli skipa umgengni í framhaldinu að fenginni þeirri reynslu.

Farbann

Sýslumaður getur, að kröfu aðila, kveðið upp úrskurð um að ekki megi fara með barn úr landi á meðan mál vegna umgengni er til meðferðar.

Úrskurður um kostnað vegna ferða barns

Sýslumaður getur að kröfu foreldris, úrskurðað um skiptingu kostnaðar af ferðum barns í tengslum við umgengni. Almennt er við það miðað að foreldri sem nýtur umgengni greiði kostnað vegna umgengninnar en sýslumaður getur á hinn bóginn ákveðið að foreldri sem barn býr hjá greiði að nokkru eða öllu leyti kostnað vegna ferða barns í tengslum við umgengni. Horfa ber til fjárhagslegrar og félagslegrar stöðu og haga beggja foreldra og til atvika máls að öðru leyti.

Sérstök úrskurðarheimild vegna utanlandsferðar þegar forsjá er sameiginleg

Í barnalögunum er nú að finna sérstaka heimild fyrir sýslumann til þess að úrskurða heimild annars forsjárforeldris til þess að fara með barn í utanlandsferð. Ef forsjá barns er í höndum beggja foreldra er öðru þeirra óheimilt að fara með barnið úr landi án samþykkis hins. Markmiðið með heimildinni fyrir sýslumann að úrskurða um utanlandsferð er að tryggja að annað forsjárforeldri geti ekki staðið í vegi fyrir því að barn geti tekið þátt í skipulögðu fríi eða ferðalagi til útlanda með hinu forsjárforeldri sínu.

Þvingunarúrræði

Dagsektir - Ef foreldri sem barn býr hjá kemur í veg fyrir umgengni foreldris og barns sem hefur verið ákveðin með úrskurði eða staðfestum samningi foreldra getur sýslumaður lagt dagsektir á foreldrið sem hindrar umgengni. Dagsektir verða því aðeins lagðar á að þess sé krafist af því foreldri sem ekki fær notið umgengni. Ef dagsektir eru ákveðnar á foreldri að greiða tiltekna fjárhæð fyrir hvern dag sem líður frá því að sýslumaður úrskurðar þær og þar til hætt er að hindra umgengni.

Dagsektir eru ekki refsing heldur tæki til að þvinga fram umgengni. Þess vegna falla þær niður ef umgengni fer fram því þá hafa þær náð tilgangi sínum. Þvingunum verður ekki beitt til að knýja fram efndir á óstaðfestum eða munnlegum samningi foreldra um umgengni. Ekki er heldur hægt að beita þvingunum til að foreldri sinni umgengnisrétti við barn.

Aðför - Ef foreldri sem barn býr hjá heldur áfram að hindra umgengni þrátt fyrir dagsektir getur dómari ákveðið að umgengni verði komið á með þeim hætti að barn sé tekið úr umsjá foreldrisins sem það býr hjá og fært umgengnisforeldrinu. Ef til þessa kemur skal fulltrúi barnaverndarnefndar vera viðstaddur og gæta hagsmuna barnsins.

Sáttameðferð

Áður en sýslumaður úrskurðar í umgengnis- eða dagsektamáli er foreldrum skylt að leita sátta. Sýslumaður býður foreldrum sáttameðferð en þeir geta einnig leitað til annarra sem hafa sérfræðiþekkingu í sáttameðferð og málefnum barna.

Markmiðið með sáttameðferðinni er að hjálpa foreldrum að gera samning um þá lausn máls sem er barninu fyrir bestu. Foreldrar verða sjálfir að mæta á sáttafundi sem sáttamaður boðar til og geta því til dæmis ekki sent lögmann á sáttafund í sinn stað.

Ef ekki tekst að ljúka ágreiningsmálinu með samkomulagi í sáttameðferðinni eða ef foreldrar mæta ekki á sáttafund gefur sáttamaðurinn út svokallað sáttavottorð sem er gilt í 6 mánuði. Nánar er fjallað um sáttameðferð í sérstökum kafla.

Umgengni ákveðin fyrir dómi

Hægt er að gera kröfu um umgengni fyrir dómi þegar ágreiningsmál um forsjá er þar til meðferðar. Umgengismál sem er til meðferðar hjá dómstólum verður ekki tekið til meðferðar hjá sýslumanni.

Sjá einnig:

Lög

Þjónusta sýslumanna

Upplýsingar og ýmis eyðublöð er varða umgengni á vef sýslumanna.

Síðast uppfært: 18.4.2023
Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Yfirlit

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum