Hoppa yfir valmynd

Markvert á árinu

Frá ársfundi 2022

Fyrstu mánuði ársins 2022 voru áhrif kórónuveirufaraldsins en að hafa áhrif á rekstur einstakra ríkisfyrirtækja en flest þeirra hafa nú náð sér á strik.  Heildartekjur jukust um 50 ma.kr. milli ára eða um 16,5% og arðsemi eiginfjár þeirra var að meðaltali um 6,6%.  

Fyrsti ársfundur ríkisfyrirtækja

Ráðuneytið stóð fyrir fyrsta Ársfundi ríkisfyrirtækja í lok september 2022. Fundinn sóttu stjórnarfólk og stjórnendur ríkisfyrirtækja og aðrir góðir gestir. Þema fundarins var góðir stjórnarhættir í breytilegu umhverfi og var m.a. farið yfir helstu áherslur og markmið eigandastefnu ríkisins og ný ársskýrsla ríkisfyrirtækja kynnt.

Sala á eignarhluta ríkissjóðs í Íslandsbanka. 

Ákveðið var að hefja framhald sölumeðferðar á hlutum ríkisins í Íslandsbanka í formi útboðs til fagfjárfesta.  Bankasýslan ríkisins annaðist framkvæmd sölunnar og kynnti opinberlega um upphaf útboðsins eftir lokun markaða þann 22. mars.  Alls voru seldir 450 milljón hlutir í bankanum (22,5%) á genginu 117 krónur á hlut eða samtals fyrir 52,7 ma.kr. Í útboðinu tóku þátt 209 hæfir fjárfestar og voru lífeyrissjóðir umfangsmestu fjárfestarnir.

Betri samgöngur

Ríkissjóður og Betri samgöngur ohf. gengu frá samningi sín á milli um að félagið taki við landsvæðinu við Keldur og Keldnaholt ásamt þeim réttindum og skyldum sem því tengjast, í samræmi við lög um stofnun félagsins um uppbyggingu samgönguinnviða á höfuðborgarsvæðinu.

Landið er alls um 116 hektarar eða að svipaðri stærð og miðborg Reykjavíkur að flatarmáli. Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, og Davíð Þorláksson, framkvæmdastjóri Betri samgangna, undirrituðu samninginn. Betri samgöngur, sem er félag í eigu ríkisins og sveitarfélaganna á höfuðborgarsvæðinu, munu annast verkefnið í samvinnu við viðeigandi skipulagsyfirvöld með það að markmiði að hámarka virði landsins og uppbyggingarmöguleika eins og kostur er með hagkvæmu skipulagi og nýtingarhlutfalli sem samræmist áformum um þéttingu byggðar á samgöngu- og þróunarás Borgarlínu. 

Um er að ræða einstæðan samning þar sem verðmætt land í eigu ríkisins verður nýtt til að standa undir uppbyggingu á mikilvægum innviðum. Allur ábati af þróun og sölu landsins mun renna óskertur til verkefna samgöngusáttmála ríkisins og sveitarfélaganna á höfuðborgarsvæðinu sem undirritaður var árið 2019. Þá er markmiðið að á landinu rísi nýtt og vandað framtíðarhverfi þar sem áhersla verður lögð á vistvænar samgöngur.

Kaup á Landsneti

Ríkið keypti á árinu 93,2% hlut Landsvirkjunar, Rarik og Orkubús Vestfjarða á 63 milljarða króna í samræmi við Orkustefnu stjórnvalda frá 2020 og viljayfirlýsingu fyrrgreindra aðila þar um fyrri hluta árs 2021.

Landsnet var stofnað með lögum 2004 og tók til starfa 2005. Félagið starfar samkvæmt sérleyfi og gegnir mikilvægu hlutverki á raforkumarkaði, en hlutverk félagsins er flutningur raforku og stjórnun raforkukerfisins. 

Í Orkustefnunni kemur m.a. fram að hlutlaust eignarhald á Landsneti sé grundvöllur gagnsæis og jafnræðis á raforkumarkaði og því sé mikilvægt að ljúka eigendaaðskilnaði flutningsfyrirtækisins þannig að það sé í beinni opinberri eigu. Kaup ríkisins grundvallast á þessu sjónarmiði og eru í samræmi við það sem kveðið er á um með nýlegum breytingum á raforkulögum og lögum um stofnun Landsnets.

Fasteignir Háskóla Íslands

Fasteignum Háskóla Íslands ehf. var komið á fót árið til að fara með eignarhald og miðlæga umsýslu á þeim fasteignum sem Háskóli Íslands nýtir í starfsemi sinni. Í október 2022 var gengið frá yfirfærslu á fasteignum í eigu ríkisins til félagsins gegn útgáfu lánssamnings til ríkissjóðs. Heildarvirði eignasafnsins er um 40 ma.kr. sem byggir á verðmæti fasteignanna út frá tekjuvirðisaðferð.

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Yfirlit

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum