Hoppa yfir valmynd

Landnotkun

Losun og binding vegna landnotkunar, breyttrar landnotkunar og skógræktar (LULUCF) 

Bætt landnýting – lykill að kolefnishlutleysi

Ávinningur aðgerða í þessum flokki felst í minni losun frá landi og aukinni kolefnisbindingu. Árlegur loftslagsávinningur vegna landnotkunar var 204 þúsund tonn árið 2005 og 523 þúsund tonn árið 2018. Með aðgerðum í aðgerðaáætlun og þróun samkvæmt grunnsviðsmynd er áætlað að ávinningurinn verði árið 2030 kominn upp í 1.248 þúsund tonn CO2-ígilda. Það er 512% aukning miðað við árið 2005 og 148% miðað við 2018.

Fimm aðgerðir eru lagðar fram til að auka kolefnisbindingu og draga úr losun

Áætlaður ávinningur vegna aðgerða í landgræðslu, skógrækt og endurheimt votlendis 1990-2030, þúsund tonn CO2-ígilda

Fimm aðgerðir eru lagðar fram til að auka kolefnisbindingu og draga úr losun - Áætlaður ávinningur vegna aðgerða í landgræðslu, skógrækt og endurheimt votlendis 1990-2030, þúsund tonn CO2-ígilda

Mynd. Binding kolefnis með landnotkun árin 2005 og 2018 og áætlaður ávinningur (minni losun og aukin binding)2030 með aðgerðum.

Taka ber fram að umfjöllun um landnotkun í aðgerðaáætluninni tekur ekki á sögulegri losun eða spá um framtíðarlosun gróðurhúsalofttegunda vegna landnotkunar. Það er vegna þess að þekking á losun vegna landnotkunar, breyttrar landnotkunar og skógræktar er skemmra á veg komin en þekking á losun frá öðrum uppsprettum, s.s. brennslu á jarðefnaeldsneyti. Umfangsmikil vinna stendur yfir við að bæta þessa þekkingu til að tryggja að fullnægjandi grunnupplýsingar liggi fyrir og unnt sé að leggja mat á stöðu og árangur aðgerða í þágu loftslagsmála.

Jarðvegur inniheldur töluvert magn af kolefni og köfnunarefni sem getur losnað út í andrúmsloftið eftir því hvernig við notum landið. Losun gróðurhúsalofttegunda vegna landnotkunar er ekki talin með innan beinna skuldbindinga ríkja á sama hátt og til dæmis losun frá jarðefnaeldsneyti. Samkvæmt skuldbindingum Íslands má nettólosun vegna landnotkunar, breyttrar landnotkunar og skógræktar (e. LULUCF) ekki aukast frá ákveðnum viðmiðunarárum. Verði aukning á losun þurfa loftslagsaðgerðir að aukast sem því nemur.

Í gegnum tíðina hefur öflug landgræðsla og skógrækt verið stunduð á Íslandi og með fyrstu útgáfu Aðgerðaáætlunar í loftslagsmálum var bætt verulega í, sjá mynd hér að neðan. Þar sést einnig að ávinningur vegna aðgerða sem ráðist er í nú eykst sem fyrr segir með tímanum eftir því sem gróðurþekja myndast, tré vaxa upp og lífrænt efni safnast í jarðveg. Þessi ferli eru hæg, sérstaklega myndun lífræns jarðvegs. Sá ávinningur sem felst í jarðvegsmynduninni er hins vegar einna mikilvægastur, enda er þar bæði um að ræða mjög stóran kolefnisgeymi og einnig geymi þar sem viðverutími kolefnisins er mjög langur. Í raun má segja að með því að binda kolefnið í jarðvegi sé verið að taka það út úr kolefnishringrásinni.

Með aðgerðum til bættrar landnotkunar mun ávinningur tvöfaldast til 2030 miðað við árið 2018 og þrefaldast til 2040

Áætlaður ávinningur vegna aðgerða í landgræðslu, skógrækt og endurheimt votlendis 1990-2030, þúsund tonn CO2-ígilda

Með aðgerðum til bættrar landnotkunar mun ávinningur tvöfaldast til 2030 miðað við árið 2018 og þrefaldast til 2040 - Áætlaður ávinningur vegna aðgerða í landgræðslu, skógrækt og endurheimt votlendis 1990-2030, þúsund tonn CO2-ígilda

Mynd. Landnotkun, ávinningur með og án aðgerðaáætlunar.

Árið 2040 er áætlað að loftslagsávinningurinn verði kominn upp í rúmlega 1.843 þúsund tonn. Vert er að undirstrika að þessi mikla viðbót tekur einungis til aðgerða ríkisins samkvæmt aðgerðaáætlun og ekki aðgerða annarra aðila í samfélaginu.

Þær aðgerðir sem hér eru til umræðu gegna mikilvægu hlutverki við að ná markmiði Íslands um kolefnishlutleysi árið 2040. Árið 2040 á losun gróðurhúsalofttegunda frá Íslandi að vera orðin hlutlaus – það er að segja að losunin verði ekki umfram bindingu kolefnis sem á sér til dæmis stað með landgræðslu og skógrækt. Ávinningur aðgerða eykst með tímanum, enda tekur tíma fyrir tré að vaxa og land að gróa.

Í kjölfar fyrstu útgáfu Aðgerðaáætlunar í loftslagsmálum var unnin og kynnt umfangsmikil áætlun til fjögurra ára um eflingu skógræktar, eflingu landgræðslu og endurheimt votlendis. Hún bar nafnið Bætt landnýting í þágu loftslagsmála. Við vinnslu hennar var farið eftir eftirfarandi forgangsáherslum:

1. Stöðva losun frá landi
Forgangsraða aðgerðum með það að markmiði að draga úr losun frá illa förnu landi með skógrækt, landgræðslu, verndun og endurheimt skóga og votlendis og breyttri landnýtingu.

2. Grunnástand og mat á árangri
Tryggja að fullnægjandi grunnupplýsingar liggi fyrir til að unnt sé að leggja mat á stöðu og árangur aðgerða í þágu loftslagsmála. Uppfylla þarf kröfur Loftslagssamnings Sameinuðu þjóðanna og reglur Evrópusambandsins um mat á losun og bindingu vegna landnotkunar.

3. Rannsóknir
Vinna að því að efla þekkingu og miðlun á þekkingu til að auka skilning á eðli losunar og bindingar gróðurhúsalofttegunda í landi og vegna landnotkunar.

4. Varanlegur viðbótarávinningur
Tryggja að auknar fjárveitingar til aðgerða í þágu loftslagsmála skili viðbótarávinningi umfram það sem þegar er verið að gera. Einnig þarf að tryggja að sá árangur sem næst sé varanlegur.

5. Samræmi við alþjóðlegar skuldbindingar
Tryggja að við undirbúning og framkvæmd aðgerða sé tekið mið af lagalega bindandi alþjóðasamningum, s.s. Samningi Sameinuðu þjóðanna um vernd líffræðilegrar fjölbreytni, Bernarsamningnum, Ramsarsamningnum, auk leiðbeinandi samninga. Í því ljósi verða ekki notaðar ágengar framandi tegundir.

 6. Samræmi við stefnumörkun stjórnvalda
Tryggja að aðgerðir sem miða að kolefnisbindingu og samdrætti í losun kolefnis frá landi samræmist og styðji við stefnumótun íslenskra stjórnvalda á öðrum sviðum, m.a. varðandi vernd og endurheimt vistkerfa s.s. votlendis, víðikjarrs og birkiskóga, uppbyggingu og nýtingu skógarauðlindar, að skipulag taki mið af landslagsheildum og miði að betri nýtingu á lífrænum úrgangi og fosfór.

7. Samstarf
Auka samstarf við sveitarfélög, landeigendur, félagasamtök, einstaklinga og fyrirtæki um aðgerðir sem leiða til aukinnar kolefnisbindingar eða samdráttar í losun frá landi, s.s. endurheimt votlendis, beitarstjórnun og landgræðslu eða skógrækt á landi sem er að losa kolefni.

Aðgerðir

Aðgerð 
Staða
Losunaráhrif 2030 
I.1 Efling skógræktar
Í framkvæmd
-134 þúsund tonn CO2-ígilda
I.2 Efling landgræðslu
Í framkvæmd
-137 þúsund tonn CO2-ígilda
I.3 Endurheimt votlendis
Í framkvæmd
-107 þúsund tonn CO2-ígilda
I.4 Verndun votlendis
Í framkvæmd
Mat á ekki við*
I.5 Kortlagning á ástandi lands
Í framkvæmd (ný aðgerð)
Aðgerð ekki metin

* Áhrif aðgerðarinnar birtist í því að losun gróðurhúsalofttegunda frá framræstu landi eykst ekki.

Aðgerðir í þessum flokki eru ýmist komnar til framkvæmda eða í undirbúningi. Sem fyrr segir hefur umfangsmikil áætlun til fjögurra ára um eflingu skógræktar, eflingu landgræðslu og endurheimt votlendis verið unnin og kynnt. Aðgerðir eru þegar hafnar samkvæmt henni. Umfang skógræktar og landgræðslu verður tvöfaldað hér á landi á fjögurra ára tímabili og endurheimt votlendis tífölduð.

Aðgerð um verndun votlendis, sem einnig fellur undir þennan flokk, felur í sér að koma í veg fyrir frekari framræslu votlendis hér á landi og stendur undirbúningur við þetta yfir. Kortlagning á ástandi lands er enn fremur hafin og gengur út á að kortleggja með heildstæðum hætti ástand beitilands og nýtingu þess til að leggja mat á sjálfbærni landnýtingar. 

Einnig má nefna að aðgerð G.11, um skipulagsgerð og loftslagsmál, tengist aðgerðum í þessum flokki.

Aðrar áherslur tengt landnotkun

Samkvæmt skuldbindingum Íslands í loftslagsmálum skal leggja mat á losun og kolefnisbindingu vegna landnotkunar og skógræktar og jafnframt greina á milli náttúrulegra ferla og áhrifa athafna mannsins. Losunarbókhald vegna landnotkunar og skógræktar er skemmra á veg komið en fyrir aðrar uppsprettur eins og til dæmis losun frá jarðefnaeldsneyti og iðnaðarferlum. Hvað landnotkun varðar er mest þekking og reynsla hér á landi til staðar á mati á kolefnisbúskap skóga. Uppbygging slíkrar þekkingar og reynslu er skemmra á veg komin varðandi aðrar landgerðir og landnotkun, svo sem mat á losun frá framræstum mýrum og mat á kolefnisbúskap beitilands. Nú stendur yfir afar umfangsmikil vinna við að bæta við þessa þekkingu.

Árið 2020 verður aukinn stuðningur við grunnrannsóknir á eðli losunar og bindingar gróðurhúsalofttegunda í landi og vegna landnotkunar. Auknu fjármagni verður varið til að styrkja bókhald vegna landnýtingar og tryggja að Ísland uppfylli kröfur Loftslagssamnings Sameinuðu þjóðanna og reglur Evrópusambandsins þar að lútandi.

Á árinu 2020 verður unnið að skilgreiningu mögulegra skuldbindinga Íslands innan Bonn-áskorunarinnar (e. Bonn challenge) sem felur í sér endurheimt skógarlandslags. Lagðar verða fram tillögur að svæðum sem fallið geta undir áskorunina þar sem megináherslan er á endurheimt og eflingu hnignaðra vistkerfa á stórum samfelldum svæðum sem skilar sér í eflingu líffræðilegrar fjölbreytni og virkari vistkerfum, aukinni
framleiðni og bindingu kolefnis í gróðri og jarðvegi. Einnig er lögð áhersla á að skapa lífvænlegri skilyrði fyrir íbúa á svæðinu. Hvetja á til þátttöku hagsmunaaðila og íbúa og aðgerðir sniðnar að aðstæðum á hverjum stað, byggt á bestu þekkingu og staðbundinni reynslu. Hér á landi eru veruleg tækifæri til endurheimtar skóglendis. Þekja birkiskóga var komin niður í 0,5% í lok 19. aldar en hefur aukist í um 1,5% (153 þúsund hektara). Einnig eru tækifæri í ræktun annarra skóga, uppgræðslu og endurheimt votlendis, m.a. í tengslum við landbúnað og sem fellur að markmiðum Bonn-áskorunarinnar.

Einnig má nefna að vorið 2020 hófst tilrauna- og átaksverkefni um nýtingu á moltu, meðal annars með tilraun til trjáræktar og landgræðslu í Hlíðarfjalli ofan Akureyrar og við uppgræðslu örfoka lands á Hólasandi í Þingeyjarsýslu og í Krýsuvík á Reykjanesskaga. Molta hefur verið prófuð í landgræðslu og skógrækt en skoða þarf nánar hvernig hún reynist við mismunandi aðstæður.

Aðgerðir sem miða að því að draga úr losun frá landi og auka kolefnisbindingu eru mikilvægur hluti af mótvægisaðgerðum Íslands gegn loftslagsvánni. Stóra verkefnið hjá ríkjum heims er að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda en einnig þarf að binda umframkolefni úr andrúmslofti.

Á Íslandi eru miklir möguleikar á að binda kolefni í gróðri og jarðvegi og draga úr losun. Enn fremur eru ótvíræð samlegðaráhrif milli loftslagsaðgerða sem varða kolefnisbindingu og aðgerða á sviði gróður- og jarðvegsverndar og aðgerða í þágu verndar lífríkisins og endurheimtar vistkerfa. Þannig er unnið að mörgum mikilvægum markmiðum í einu.

Árangursmælikvarðar

Hektarar nýs skóglendis á ári
Árlegur fjöldi gróðursettra skógarplantna skipt á trjátegundir.
Hlutfall varanlegra viðarafurða af árlegri viðarframleiðslu.
Árlegt flatarmál landgræðsluaðgerða.
Hektarar votlendis endurheimtir árlega.
 Árleg heildarlengd skurða.
 Hlutfall gróins lands í góðu ástandi.
 Hlutfall gróins lands í slæmu ástandi.
Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum