Hoppa yfir valmynd

Hvatar til umskipta

Losun á beinni ábyrgð Íslands 

Margföldunaráhrif út í samfélagið

Sá flokkur aðgerða sem hér er til umræðu samanstendur ekki af losun frá ákveðinni uppsprettu heldur hverfist hann um ákveðna gerð aðgerða. Þetta eru aðgerðir sem allar virka sem hvatar til umskipta sem verða að eiga sér stað í samfélaginu.

Aðgerðir

Hvatar til umskipta eru til að mynda fræðsla um loftslagsmál, sjálfbær innkaup á stórum skala og gerð loftslagsstefnu til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda. Í þessum flokki er að finna aðgerðir í ríkisrekstri, enda brýnt að ríkisaðilar grípi til aðgerða sem hafa bein áhrif út í samfélagið. Auk þess eru hér aðgerðir sem eru almennar og ganga þvert á ólíka uppsprettu losunar gróðurhúsalofttegunda – það er kolefnisgjald og nýsköpun í loftslagsmálum.

Sumum aðgerðum er ætlað að draga línu í sandinn frekar en að hafa bein áhrif á samdrátt í losun en um aðrar gildir að ekki er ljóst að svo stöddu hver loftslagsáhrif þeirra verða. Það síðarnefnda á til dæmis við um verkefni sem eiga eftir að fá styrk úr Loftslagssjóði, breytt skipulag sveitarfélaga í framtíðinni og sjálfbær opinber innkaup sem enn er verið að móta.

Almennar aðgerðir

Aðgerð 
Staða
Losunaráhrif 2030 
G.1 Kolefnisgjald
Í framkvæmd
Metin með A.4-A.7
G.2 Loftslagssjóður
Í framkvæmd
Ekki hægt að meta
G.3 Skil á umhverfisupplýsingum
Í undirbúningi
Ekki hægt að meta

Aðgerðir í þessum flokki eru ýmist komnar til framkvæmda eða í undirbúningi. Kolefnisgjald hefur þegar verið hækkað þrisvar sinnum frá árinu 2018. Loftslagssjóður hefur tekið til starfa og þegar styrkt 10 nýsköpunarverkefni og 22 kynningar- og fræðsluverkefni.

Fræðsla

Aðgerð 
Staða
Losunaráhrif 2030 
G.4 Fræðsla um loftslagsmál fyrir almenning
Í framkvæmd
Ekki hægt að meta
G.5 Menntun um loftslagsmál í skólum
Í framkvæmd
Ekki hægt að meta

Í sérstökum undirflokki um fræðslu er að finna aðgerðir sem miða annars vegar að fræðslu um loftslagsmál fyrir almenning og hins vegar að menntun um loftslagsmál í skólum, enda mikilvægt að stuðla að aukinni vitund um loftslagsmál og hvernig hægt er að bregðast við. Mörg fræðsluverkefni þessu tengt hafa litið dagsins ljós eða eru í bígerð. Í menntastefnu stjórnvalda sem birtist meðal annars í aðalnámskrám leik-, grunn- og framhaldsskóla er skýr áhersla á menntun til sjálfbærni og mörg tækifæri til enn frekari fræðslu og aðgerða. Einnig hafa börn og ungmenni að eigin frumkvæði látið loftslagsmál til sín taka með ábyrgum hætti.

Aðgerðir í ríkisrekstri

Aðgerð 
Staða
Losunaráhrif 2030 
G.6 Loftslagsáhrif lagafrumvarpa
Í undirbúningi (ný aðgerð)
Aðgerð í mótun, ekki metin
G.7 Sjálfbær fjármögnun ríkissjóðs
Í undirbúningi (ný aðgerð)
Aðgerð í mótun, ekki metin
G.8 Sjálfbær opinber innkaup
Í undirbúningi (ný aðgerð)
Aðgerð í mótun, ekki metin
G.9 Loftslagsstefna Stjórnarráðsins
Í framkvæmd
-165 tonn CO2-ígilda
G.10 Loftslagsstefna annarra opinberra aðila
Í framkvæmd (ný aðgerð)
Ekki metin að svo stöddu
G.11 Skipulagsgerð og loftslagsmál
Í undirbúningi
Ekki hægt að meta

Í undirflokknum aðgerðir í ríkisrekstri er að finna aðgerðir sem ætlað er að hafa ruðningsáhrif út í samfélagið og þar eru fjórar nýjar aðgerðir. Loftslagsáhrif lagafrumvarpa gengur út á að rýna frumvörp út frá loftslagsáhrifum þeirra. Aðgerð um sjálfbæra fjármögnun ríkissjóðs er ætlað að undirstrika mikilvægi aðgerða í loftslagsmálum við fjárfesta og það hvernig fjármálamarkaðurinn getur beitt sér til að takast á við loftslagsvána. Hún felur í sér að kanna fýsileika þess að gefa út græn ríkisskuldabréf og opna leiðir að grænum fjárfestum fyrir hefðbundnar lántökur ríkissjóðs. Sjálfbær opinber innkaup miða að því að tekið verði tillit til umhverfissjónarmiða við öll innkaup ríkisins. Ríkið kaupir vörur og þjónustu fyrir 117 milljarða á ári og getur því haft gríðarleg áhrif til hins betra fyrir umhverfið.

Loftslagsstefna Stjórnarráðsins hefur frá því að fyrsta útgáfa aðgerðaáætlunarinnar kom út verið útfærð og tekið gildi. Henni er meðal annars ætlað að auka eftirspurn eftir loftslagsvænni lausnum í samfélaginu, svo sem vistvænum leigubílum og bílaleigubílum, sem og öflugum samgöngusamningum. Veflausn til að tengja losunartölur úr flugferðum við markmið um samdrátt í losun er jafnframt í þróun. Loftslagsstefna annarra opinberra aðila er ný aðgerð sem miðar að því að hið opinbera í heild sinni verði aðstoðað við að verða til fyrirmyndar í loftslagsmálum. Aðgerð um skipulagsmál og loftslagsmál gengur út á að beita skipulagsgerð sveitarfélaga markvisst í tengslum við loftslagsmál.

Aðgerðir í fyrri köflum tengjast einnig aðgerðum í ríkisrekstri beint – aðgerðirnar A.10um skyldu ríkisaðila til að kaupa vistvænar bifreiðar og B.5 um orkuskipti í skipum á vegum ríkisins.

Árangursmælikvarðar

Magn jarðefnaeldsneytis selt á ári.
Fjármagni úthlutað úr Loftslagssjóði á hverju ári.
Fjöldi og hlutfall rekstraraðila sem skila umhverfisupplýsingum.
Hlutfall fólks sem samkvæmt könnun hefur breytt hegðun sinni sl. 12 mánuði til þess að lágmarka
 áhrif sín á umhverfi og loftslagsbreytingar.

Hlutfall skóla með menntun á sviði loftslagsmála
Hlutfall skóla með menntun á sviði loftslagsmála, skipt eftir skólastigum.
Fjöldi og hlutfall frumvarpa sem rýnd eru út frá loftslagsáhrifum þeirra.
Úttekt vinnuhóps á möguleikum liggur fyrir.
 Hlutfall útboða með vistvænum skilyrðum.
 Losun gróðurhúsalofttegunda á hvert stöðugildi í Stjórnarráðinu.
 Fjöldi/hlutfall stofnana, sveitarfélaga og fyrirtækja í meirihlutaeigu ríkisins sem hafa sett sér loftslagsstefnu.
 Viðauki að landsskipulagsstefnu samþykktur á Alþingi.
Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum