Hoppa yfir valmynd
G. Hvatar til umskipta

Lýsing

G.3 Skil á umhverfisupplýsingum . Aðgerðin felur í sér að bæta skil á umhverfisupplýsingum rekstraraðila, meðal annars upplýsingum um hráefnanotkun og um losun mengandi efna, þar á meðal gróðurhúsalofttegunda.

Staða


Aðgerðin er í vinnslu.

Unnið er að reglugerð um umhverfisupplýsingar og uppsetningu gagnagáttar til að samræma upplýsingar og einfalda rekstraraðilum skil á slíkum gögnum. Markmiðið með þeirri vinnu er að fá betri og ítarlegri gögn frá þeim rekstraraðilum sem ber að skila umhverfisupplýsingum þannig að til verði betra yfirlit yfir mengandi starfsemi á landinu og losun og úrgangsmeðhöndlun af völdum þeirrar starfsemi.

Gert er ráð fyrir að skylda til að skila umhverfisupplýsingum muni ná til fyrirtækja í mengandi rekstri sem falla undir lög um hollustuhætti og mengunarvarnir og er stefnt að því að skil verði rafræn í gegnum gagnagátt. Þar verður skilað inn upplýsingum sem Umhverfisstofnun þarfnast til að sinna lögbundnum skyldum sínum og þarf að skila til Eftirlitsstofnunar EFTA (ESA) og Loftslagssamnings Sameinuðu þjóðanna.

Framkvæmd

Unnin verður reglugerð um umhverfisupplýsingar til að samræma upplýsingar og einfalda rekstraraðilum skil á slíkum gögnum.

Árið 2019 var gerð breyting á lögum nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir þar sem krafa um skil á sérstöku grænu bókhaldi var lögð niður og þess í stað gerð krafa um skil á umhverfisupplýsingum. Umhverfisupplýsingar fela í sér sömu eða svipaða efnislega þætti og hingað til hefur verið skilað með grænu bókhaldi og útstreymisbókhaldi, meðal annars upplýsingar um losun mengandi efna frá hverri starfsstöð og um hráefnanotkun.

Ofangreind reglugerðarsmíð er þegar hafin. Markmiðið er að fá ítarlegri upplýsingar frá þeim rekstraraðilum sem ber að skila umhverfisupplýsingum þannig að til verði betri upplýsingar um losun og hráefnanotkun á landinu. Reglugerð um útstreymisbókhald mun halda í grunninn og ákvæði úr reglugerð um grænt bókhald verður fléttað inn í hana, sem og ákvæðum um skil á upplýsingum sem Umhverfisstofnun þarfnast til að sinna lögbundnum skyldum sínum, svo sem gagnvart Eftirlitsstofnun EFTA og Loftslagssamningi Sameinuðu þjóðanna. 

Gert er ráð fyrir að skylda til að skila umhverfisupplýsingum muni ná til mengandi fyrirtækja í rekstri sem falla undir lög um hollustuhætti og mengunarvarnir. Má þar nefna málmvinnslu, efnaiðnað, fyrirtæki á sviði orkuiðnaðar, fiskimjölsverksmiðjur, malbikunarstöðvar, olíubirgðastöðvar, virkjanir, hreinsivirki fráveitu og eldi alifugla og svína. Eins fellur hér undir umfangsminni starfsemi á borð við efnalaugar og bensínstöðvar.

Stefnt er að því að kynna drög að reglugerð um umhverfisupplýsingar í Samráðsgátt stjórnvalda síðla árs 2020. Aðgerðin hefur verið útfærð frá því í fyrstu útgáfu aðgerðaáætlunar en þar bar hún nafnið Grænt bókhald: Útvíkkun kolefnisbókhalds.

Ábyrgð

Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytið

Árangursmælikvarði

Fjöldi og hlutfall rekstraraðila sem skila umhverfisupplýsingum.

Upplýsingarnar verða teknar saman þegar rekstraraðilar hefja skil samkvæmt væntanlegri reglugerð.

Áhrif á ríkissjóð

Aðgerðin felur í sér óverulegan kostnað fyrir ríkissjóð.

Áhrif á losun

Ekki er gert ráð fyrir samdrætti í losun með þessari aðgerð en hún mun á hinn bóginn gera upplýsingar um losun og hráefnanotkun fyrirtækja einfaldari og aðgengilegri. Það mun meðal annars auðvelda almenningi, félagasamtökum og öðrum að veita aðhald sem vænta má að hvetji fyrirtæki til að standa sig enn betur.

 

Til baka
Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum