Hoppa yfir valmynd

Skattalegar áskoranir vegna stafræna hagkerfisins

Í október 2021 samþykktu 136 ríki sem eru aðilar að aðgerðaáætlun OECD og G20-ríkjanna gegn rýrnun skattstofna og tilfærslu skattskylds hagnaðar (e. Base Erosion and Profit Shifting, BEPS) ályktun um sérstakt tveggja stoða kerfi til að bregðast við þeim skattalegu áskorunum sem uppi eru vegna stafræna hagkerfisins. Til og með 16. desember 2022 hafa 138 ríki samþykkt ályktunina. Afrakstur þeirrar vinnu er nú að birtast í drögum að reglum um skattlagningu á stafræna hagkerfið (stoð 1) og alheimslágmarksskatt (stoð 2), sem stundum er vísað til sem BEPS 2.0. Samkvæmt stoð 1 er gert ráð fyrir að 25% af hagnaði stærstu alþjóðlegu tæknifyrirtækjanna verði skattlögð í markaðsríkjum. Um er að ræða skatt á stafræna hagkerfið sem beinist að því að heimila markaðsríkjunum þar sem þjónusta er keypt að leggja skatt á hagnað þeirra alþjóðlegu tæknifyrirtækja sem falla munu undir skattlagninguna. Stoð 2 snýr m.a. að upptöku á 15% alþjóðlegum lágmarksskatti á stórfyrirtæki með það að markmiði að tryggja að þau fyrirtæki greiði lágmarksskatt af tekjum sem myndast í hverri lögsögu þar sem samsteypan starfar. Með því verður spornað við þeirri framkvæmd að alþjóðleg stórfyrirtæki láti umframhagnað myndast í lágskattaríkjum. OECD hefur nú birt leiðbeiningar til að aðstoða ríki við innleiðingu á stoð 2. Ekki hefur hins vegar náðst endanlegt samkomulag um útfærslu á stoð 1 en vænta má þess að niðurstöður liggi fyrir á fyrri hluta tímabils fjármálaáætlunarinnar. Ísland er þátttakandi í BEPS-verkefninu og mun vinna að innleiðingu á stoð 1 og 2 út frá leiðbeiningum OECD.


Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum