Hoppa yfir valmynd

Þenslan í þjóðarbúinu

 

Það árar vel í efnahagslífinu. Þenslan í þjóðarbúinu kallar eindregið á aðhald í hagstjórn. Vegna sviptinga frá því í heimsfaraldrinum ríkir þó óvissa um jafnvægisstig lands¬framleiðslunnar og þar með um spennustig hagkerfisins. Það verður ekki ljóst fyrr en litið er í baksýnisspegilinn hversu mikið hægja þarf á vexti umsvifa til þess að jafnvægi náist.

Mikill vöxtur umsvifa endurspeglar ekki eingöngu þenslu heldur eru fjárfesting og að¬flutningur fólks til þess fallin að auka jafnvægisstig landsframleiðslunnar. Efnahagsumsvif hafa þó greinilega vaxið hraðar en framleiðslugeta. Það leiðir til verðbólgu sem er nú helsta viðfangsefni hagstjórnar.

 

Talsverð þensla er í hagkerfinu

 

 

Meðfylgjandi mynd sýnir þróun nokkurra mælikvarða á þenslu. Ekki er alltaf samhljómur með mælikvörðunum en nú benda þeir allir til þess að umsvif í hagkerfinu séu yfir jafnvægi samkvæmt nýjustu mælingum. Að meðaltali benda þessir mælikvarðar til þess að á síðasta ári hafi þensla verið meiri en þegar mest lét 2015–2018. Mælikvarðarnir eru settir fram sem hlutfall af áætlaðri framleiðslugetu þjóðarbúsins í jafnvægi. Þannig benda þeir til þess að landsframleiðsla sé nú fáeinum prósentum meiri en samrýmist stöðugu verðlagi og atvinnustigi.

Mat á framleiðsluspennu hefur afgerandi þýðingu fyrir hagstjórn. Málin vandast þó því veruleg óvissa er um framleiðslugetu hagkerfisins á hverjum tíma. Mat á stöðu hagsveiflunnar byggt á þeim upplýsingum, sem eru aðgengilegar hverju sinni, getur því reynst allt annað en þegar fram líða stundir eins og eftirfarandi mynd sýnir. Um þessar mundir ríkir til að mynda óvissa um hvaða stig atvinnuleysis samrýmist lágri og stöðugri verðbólgu. Vegna mikilla launahækkana og annarra breytinga á vinnumarkaði er líklegt að jafnvægisatvinnuleysi hafi hækkað frá því fyrir faraldurinn. Á þessari stundu er þó ekki vitað hversu mikið. Tæknibreytingar, mikill aðflutningur fólks og kraftmikil fjárfesting í sögulegu samhengi kann einnig að leiða til þess að framleiðslugeta reynist vaxa umfram núverandi væntingar. Hvað sem óvissu um þetta líður kalla skýrar vísbendingar um þenslu á vinnumarkaði og verðbólga umtalsvert yfir markmiði eindregið á hagstjórnarlegt aðhald.

 

Staða hagsveiflu kemur ekki fyllilega í ljós fyrr en síðar

 

Þenslan er nú orðin talsverð að umfangi í sögulegum og fjölþjóðlegum samanburði. Í um helmingi þenslutímabila í Evrópulöndum undanfarna áratugi er frávik landsframleiðslu frá leitni sinni um eða innan við 3% af framleiðslugetu þegar þensla er mest. Mælikvarðarnir á myndinni hér að framan benda til þess að spennan hafi í fyrra og í upphafi þessa árs verið álíka mikil hér á landi. Hún virðist þó enn vera töluvert minni en í aðdraganda fjármálakreppunnar en þá var landsframleiðsla 5–10% umfram leitni sína.

Þenslutímabilið hefur nú staðið yfir í tæplega tvö ár ef miðað er við miðbik árs 2021 sem upphafspunkt en þá virðist framleiðsluslakinn í heimsfaraldrinum hafa horfið og framleiðslu¬spenna tekið að myndast. Gögn fyrir Evrópulönd benda til þess að þenslutímabil, sem hafa staðið svo lengi yfir, vari að jafnaði í eitt ár til viðbótar. Í 90% tilfella ljúki þeim innan tveggja og hálfs árs. Það getur gerst með vexti framleiðslugetu, sveiflujafnandi hagstjórn eða vegna ytri búsifja. Ekki skal draga of miklar ályktanir af þessum gögnum, m.a. þar sem unnt er að skilgreina þenslu með mismunandi hætti. Þau draga það þó fram að fyrr en síðar mun hagvöxtur aftur verða minni en að meðaltali og framleiðsluspennan minnka. Því er óvarlegt að gera ráð fyrir öðru en að sjálfvirk áhrif þenslunnar á afkomu hins opinbera muni senn fjara út en þau skýra drjúgan hluta afkomubatans undanfarin tvö ár.

 

 

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum