Hoppa yfir valmynd

27 Örorka og málefni fatlaðs fólks

Umfang

Starfsemi á þessu málefnasviði er á ábyrgð félags- og vinnumarkaðsráðherra og fjármála- og efnahagsráðherra. Það skiptist í fimm málaflokka sem sjá má í eftirfarandi töflu ásamt fjárhagslegri þróun þeirra og málefnasviðsins í heild á tímabilinu 2021–2023.

Tafla: Heildarúgjöld málasviðsins

Framtíðarsýn og meginmarkmið

Framtíðarsýn málefnasviðsins er að fatlað fólk, fólk með örorku eða skerta starfsgetu njóti mannréttinda, valfrelsis og sjálfstæðis og geti verið virkir og ábyrgir þátttakendur í lýðræðis­samfélagi í nútíð og framtíð. Fatlað fólk, fólk með örorku eða mismikla starfsgetu geti lifað sjálfstæðu lífi á forsendum eigin getu þar sem það framfleytir sér með tekjum sínum og nýtur viðeigandi þjónustu og greiðslna eftir þörfum á mismunandi þjónustustigum. Þjónustan sem er veitt sé framsækin og metnaðarfull og í samræmi við gildandi lög og reglur og þá alþjóða­samninga sem Ísland er aðili að. Íslenskt samfélag byggist á því að virðing sé borin fyrir fötluðu fólki sem hluta af mannlegum margbreytileika. Full mannréttindi fatlaðs fólks verði efld, varin og tryggð til jafns við aðra og skilyrði sköpuð til að fatlað fólk geti lifað sjálfstæðu lífi á eigin forsendum. Allt fatlað fólk njóti grundvallarfrelsis og virðing verði borin fyrir mannlegri reisn þess, sjálfræði og sjálfstæði. Nýsköpun og tækni verði nýtt til að bæta lífsgæði fólks með mismikla starfsgetu í samræmi við velsældaráherslur ríkisstjórnarinnar.

Meginmarkmið málefnasviðsins er að öll þjónusta og stuðningur, þar á meðal bætur og greiðslur, stuðli að því að fatlað fólk, fólk með örorku eða mismikla starfsgetu geti lifað inni­haldsríku og sjálfstæðu lífi. Afkoma örorku- og endurhæfingarlífeyrisþega verði áfram bætt með það að markmiði að bæta sérstaklega kjör þeirra sem lakast standa.

Í stjórnarsáttmála ríkisstjórnar er kveðið á um að samningur Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks skuli lögfestur, örorkulífeyriskerfið verði einfaldað og dregið úr tekju­tengingum þannig að fólk hafi fjárhagslegan hag af atvinnuþátttöku. Kerfið verði gert skil­virkara, gagnsærra og réttlátara og breytingarnar innleiddar í áföngum. Þá er í stjórnarsáttmála lögð áhersla á valfrelsi þeirra einstaklinga sem nú eru með fullt örorkumat um það hvort þau færist yfir í nýtt örorkulífeyriskerfi við upptöku þess.

Í samræmi við velsældaráherslur ríkisstjórnarinnar um virkni í námi og starfi verði vel­ferðarþjónustan aðgengileg, einföld og skilvirk og auðveldi einstaklingum að taka virkan þátt í samfélaginu, þar á meðal á vinnumarkaði. Lögð verði áhersla á mannréttindi og bann við mismunun á grundvelli fötlunar þannig að tryggt verði að fatlað fólk njóti mannréttinda og mannfrelsis til jafns við aðra og því tryggður stuðningur til að njóta þeirra réttinda.

Fjármögnun

Gert er ráð fyrir 16,3 ma.kr. auknum framlögum á tímabili áætlunarinnar vegna heildarendurskoðunar örorkulífeyriskerfisins. Þá er gert ráð fyrir að framlag til jöfnunar á örorkubyrði lífeyrissjóðanna verði endurskoðað og það svigrúm sem skapast verði nýtt til að styðja við áformaðar breytingar. Alls má því gera ráð fyrir að framlög til málefnasviðsins hækki um 18,8 ma.kr frá fjárlögum 2023. Það skýrist einnig af áætlunum um fjölgun lífeyrisþega á tímabili fjármálaáætlunarinnar og hins vegar af lægra nýgengi örorku á árunum 2022 og 2023 en gert hafði verið ráð fyrir.

Í meðfylgjandi töflu má sjá fjárheimildir málefnasviðsins til næstu fimm ára og áætlaða skiptingu þeirra í rekstur og tilfærslur annars vegar og fjárfestingu hins vegar.

Tafla: Fjárheimildir málasviðsins

Helstu áherslur 2024–2028

ÖFLUGT VELFERÐARKERFI UNDIRSTAÐA JÖFNUÐAR  -  Bætt lífskjör og lífsgæði.	Greiðslukerfi styðji við snemmtæka íhlutun. Virkni, menntun og atvinnuþátttaka.

27.1 Bætur samkvæmt lögum um almannatryggingar

Verkefni

Örorkulífeyrir ásamt tekjutryggingu og aldurstengdri örorkuuppbót er ætlaður til fram­færslu þeirra sem hafa skerta starfsgetu og tekjur undir tilteknu viðmiði. Greiðslurnar eru inntar af hendi samkvæmt lögum um almannatryggingar til þeirra sem metnir hafa verið til a.m.k. 75% örorku þegar aðrar tekjur eru undir tilteknu viðmiði og að uppfylltum skilyrðum um lágmarksbúsetu hér á landi. Að auki geta þeir sem hafa verið metnir að lágmarki til 50% örorku en þó minna en 75% örorku fengið greiddan örorkustyrk. Tryggingastofnun ríkisins ber ábyrgð á framkvæmd greiðslna sem falla undir málaflokkinn.

Helstu áskoranir

Helsta áskorun á málefnasviðinu er fjölgun örorku- og endurhæfingarlífeyrisþega umfram aukinn mannfjölda. Þannig sýna mælingar að á síðasta áratug fjölgaði þeim úr 7,9% af mannfjölda í 9,3% af mannfjölda en sú tala stóð í stað 2021 og hefur lækkað niður í 9,2% árið 2022. Í því skyni að draga úr fjölgun örorkulífeyrisþega hefur á síðustu árum verið lögð aukin áhersla á endurhæfingu og hefur endurhæfingarlífeyrisþegum fjölgað verulega á árunum 2017–2020 eða að jafnaði um 20% ári en útlit er fyrir að hámarki hafi verið náð þar sem fækkun var milli áranna 2021 og 2022. Heildarfjöldi örorku- og endurhæfingarlífeyrisþega hefur þannig aukist að jafnaði um rúmlega 3% á síðasta áratug en fjölgunin var innan við prósentustig 2021 og 2022. Heildarfjöldi hefur þannig haldist nokkuð stöðugur af mannfjölda eftir að áhersla var aukin á endurhæfingu eða á bilinu 9,1–9,3%.

Af þeim sem metnir hafa verið með a.m.k. 75% örorku hjá Tryggingastofnun ríkisins fá um 96% örorkulífeyri greiddan frá almannatryggingum. Nýgengi örorku telst hjá þeim sem fá 75% örorkumat í fyrsta skipti og var það nánast hið sama á árunum 2019–2021, tæplega 1.300 einstaklingar, en jókst síðan í 1.411 á árinu 2022.

Konur eru í meira mæli með örorkumat vegna stoðkerfissjúkdóma, sérstaklega um og eftir miðjan aldur, og aukning er í nýgengi örorkumats meðal ungra kvenna sökum geðraskana. Hjá körlum er aukning örorkumats meiri í yngri aldurshópum, einkum vegna geðrænna vandamála. Konur eru um 60% þeirra sem eru með 75% örorkumat og karlar um 40%.

Önnur áskorun er að lífeyriskerfi almannatrygginga styðji við markmið samræmds sérfræðimats á vinnugetu (ICF-mat) á sama tíma og það veiti fólki með örorku eða mismikla starfsgetu afkomuöryggi, viðeigandi þjónustu og tækifæri til endurhæfingar. Reynslan sýnir að eftir að fólk hefur verið metið til örorku og hafið töku örorkulífeyris minnka líkur á að það fari aftur á vinnumarkað, jafnvel þótt starfsgeta aukist á ný. Er talið að það megi rekja til þess að hvata skorti í gildandi kerfi til þátttöku á vinnumarkaði, m.a. vegna samspils skatta, bóta og annarra tekna lífeyrisþega.

Tækifæri til umbóta

Tækifæri til að mæta áskorun um fjölgun örorkulífeyrisþega felst í aukinni áherslu á snemmtæka íhlutun fyrr í veikindaferlinu en nú er, og fyrirbyggjandi aðgerðum á vinnumarkaði, auk innleiðingar samþætts sérfræðimats á vinnugetu einstaklinga sem byggist á líkamlegum, sálfræðilegum og félagslegum áhættuþáttum og komi í stað gildandi örorkumats. Einnig felast tækifæri í samstarfi ólíkra þjónustukerfa sem geta í sameiningu veitt heildstæða einstaklingsmiðaða þjónustu sem byggist á samþættu sérfræðimati og efla þjónustu er styður fólk til virkni, þar á meðal þátttöku á vinnumarkaði. Er það í samræmi við velsældaráherslur ríkisstjórnarinnar um að fólk fái notið virkni í starfi. Á undanförnum árum hefur endurhæfingarlífeyrisþegum farið fjölgandi þar sem aukin áhersla hefur verið lögð á það að láta reyna á endurhæfingu áður en til örorkumats kemur og hefur það dregið nokkuð úr nýgengi örorku. Þessar aðgerðir hafa leitt til þess að þeim sem fá greiddan endurhæfingarlífeyri hefur fjölgað en að sama skapi aukast líkur á að fleiri geti til lengri tíma framfleytt sér sjálfir, að hluta eða öllu leyti, með þátttöku á vinnumarkaði. Markmiðið er að einstaklingum verði gert kleift að nýta hæfileika sína og krafta til þess að þeir geti orðið virkir þátttakendur í samfélaginu enda felast í því betri lífskjör og aukin lífsgæði. Er það í samræmi við velsældaráherslur ríkisstjórnarinnar um virkni í námi og starfi og fellur einnig að heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna nr. 4 og nr. 8 um menntun fyrir öll og góða atvinnu og hagvöxt. Sjá einnig málefnasvið 30.

Stefnt er að því að leggja fram frumvarp til laga um starfsendurhæfingu og greiðslur vegna starfsgetumissis og að samhliða því verði lagðar til breytingar á lögum um almannatryggingar og lögum um félagslega aðstoð en í þeim frumvörpum verður lagt til að stuðst verði við samþætt sérfræðimat á vinnugetu þar sem litið verði til getu einstaklinga til að framfleyta sér, eins og nánar er lýst í fjármálaáætlun 2023–2027.

Til að bregðast við áskorun um að lífeyriskerfi almannatrygginga styðji við markmið fyrr­greinds mats á vinnugetu er gert ráð fyrir að í áðurnefndum frumvörpum verði lagt til einfaldara og sveigjanlegra örorkulífeyriskerfi almannatrygginga. Mikilvægt er að greiðslukerfið sé gagnsætt og skiljanlegt þannig að greiðsluþegar geti auðveldlega séð fyrir hvaða greiðslur þeir geta fengið og hvaða áhrif atvinnuþátttaka hefur á greiðslur. Þá verði í frumvarpinu m.a. lagt til að bótaflokkar verði sameinaðir og útreikningar einfaldaðir. Enn fremur er lögð áhersla á að réttindakerfi almannatrygginga verði þannig uppbyggt að það hvetji til atvinnuþátttöku einstaklinga með mismikla starfsgetu. Metið verður hvernig frítekjumark vegna atvinnutekna hefur áhrif á atvinnuþátttöku fólks með mismikla starfsgetu en mikilvægt er að í greiðslukerfi almannatrygginga séu innbyggðir hvatar sem stuðli að aukinni atvinnuþátttöku. Áhersla verður lögð á að þeir einstaklingar sem eru með fullt örorkumat við upptöku á nýju kerfi hafi val um hvort þeir færist yfir í nýja kerfið.

Kyngreind gögn liggja fyrir um stöðu þeirra sem undir málaflokkana falla. Ólík staða karla og kvenna í þjóðfélaginu endurspeglast í mismunandi greiðslum til þeirra frá almanna­tryggingum. Breytingum á greiðslukerfi almannatrygginga er ætlað að stuðla að meiri jöfnuði sem nýtist konum betur vegna þess að aðrar tekjur þeirra eru almennt lægri en tekjurnar sem þær fá frá almannatryggingum sér til framfærslu. Einfaldara og sveigjanlegra greiðslukerfi þar sem dregið er úr tekjutengingum ætti að mæta betur mismunandi þörfum einstaklinga með skerta starfsgetu. Fleiri konur en karlar fá örorkugreiðslur frá almannatryggingum og því gagnast aðgerðir til einföldunar konum hlutfallslega betur en körlum.

Áhættuþættir

Helsti áhættuþátturinn felst í því að ekki náist samstaða um fyrirhugaðar breytingar á greiðslu- og þjónustukerfi almannatrygginga vegna örorku og mismikillar starfsgetu. Um er að ræða breytingar sem varða lífsafkomu tugþúsunda einstaklinga og til að tryggja framgang breytinganna er nauðsynlegt að stuðla að sátt og samvinnu þeirra aðila sem að verkefninu koma og hafa hagsmuna að gæta.

Markmið og mælikvarðar

Markmið
HM
Mælikvarðar
Staða
 2022

Viðmið
2024
Viðmið
 2028

Einfaldara og sveigjanlegra bótakerfi almannatrygginga vegna mismikillar starfsgetu.
1.3
Hlutfall lífeyrisþega með of-/vangreiðslur innan 50.000 kr. viðmiðunarmarka.
55,9%
62%
65%
Minnka nýgengi örorku og jafna kynjadreifingu.
 
 
 
Aukin áhersla verði lögð á getu einstaklinga til þátt­töku á vinnumarkaði og jafna kynjadreifingu.
1.3,
10
Fjöldi einstaklinga sem fá árlega fyrsta örorkumat sem hlutfall af mannfjölda 18–66 ára.
Karlar: 593;
er um 0,45%
Konur: 818;
er um 0,68%
Karlar: 0,4%
Konur: 0,63%
Karlar: 0,35%
Konur: 0,55%
8.5
Hlutfall einstaklinga með a.m.k. 75% örorkumat af mannfjölda á aldrinum 18–66 ára.
Karlar: 5,7%
Konur: 9,7%
Karlar: 5,5%
Konur:
9,5%
Karlar:
5,2%
Konur:
9,2%
 
Hlutfall einstaklinga með 75% örorkumat með atvinnutekjur.
Karlar: 25,2%
Konur:
22,5%
Karlar:
27%
Konur:
25%
Karlar:
32%
Konur:
30%

Í fjármálaáætlun 2023–2027 var gert ráð fyrir að hlutfall lífeyrisþega með of-/vangreiðslur innan 50.000 kr. viðmiðunarmarka færi hækkandi með einfaldara og sveigjanlegra bótakerfi almannatrygginga vegna skertrar starfsgetu. Sú hefur ekki orðið raunin og er skýringin fyrst og fremst sú að ekki hefur tekist að innleiða hið nýja greiðslukerfi. Því er gert ráð fyrir að þetta hlutfall lækki talsvert á árinu 2022 en fari síðan hækkandi eftir innleiðingu hins nýja kerfis.

27.2 Bætur samkvæmt lögum um félagslega aðstoð, örorka

Verkefni

Endurhæfingarlífeyrir er greiddur samkvæmt lögum um félagslega aðstoð þegar ekki verður séð hver starfshæfnin verður til frambúðar eftir sjúkdóma eða slys. Greiðslurnar eru tímabundnar og greiðast í allt að 36 mánuði en heimilt er að framlengja tímabilið um allt að 24 mánuði til viðbótar enda sé starfsendurhæfing með það að markmiði að auka atvinnuþátttöku enn talin raunhæf. Endurhæfingarlífeyrisþegar geta einnig fengið greidda tekjutryggingu og aldurstengda örorkuuppbót samkvæmt lögum um almannatryggingar en sömu reglur gilda um útreikning örorku- og endurhæfingarlífeyris.

Til viðbótar örorku- og endurhæfingarlífeyri er heimilt að greiða ýmiss konar styrki og uppbætur samkvæmt lögum um félagslega aðstoð. Má þar nefna heimilisuppbót, uppbót á lífeyri vegna kostnaðar lífeyrisþega sem ekki fæst greiddur eða bættur annars staðar, sérstaka uppbót vegna framfærslu og uppbætur og styrki vegna bifreiðakaupa og reksturs bifreiða. Tryggingastofnun ríkisins ber ábyrgð á framkvæmd greiðslna sem falla undir málaflokkinn.

Helstu áskoranir

Helsta áskorun á málefnasviðinu er að leggja aukna áherslu á snemmtæka íhlutun og virkni einstaklinga í því skyni að fjölgun þeirra sem metnir eru til örorku hjá almannatryggingum verði ekki umfram fjölgun fólks á aldrinum 18–66 ára. Þá er það áskorun að greiðslukerfi almannatrygginga vegna örorku og endurhæfingar styðji við markmið samþætts sérfræðimats á getu einstaklinga til vinnu.

Það er einnig áskorun að bregðast við fjölgun innflytjenda sem af einhverjum ástæðum hafa ekki áunnið sér rétt til lífeyris í fyrra búsetu- eða starfslandi. Bæta þarf stuðning við þann hóp öryrkja og tryggja betur framfærslu hans en leiða má líkur að því að þessir einstaklingar hafi margir mjög takmörkuð efni og úrræði sér til framfærslu. Einnig er mikilvægt að bæta sérstaklega kjör þeirra örorkulífeyrisþega sem lakast standa, t.d. þeirra sem hafa litlar eða engar tekjur aðrar en bætur almannatrygginga og eru í leiguhúsnæði eða mjög skuldsettu húsnæði.

Tækifæri til umbóta

Tækifæri til umbóta felast í aukinni áherslu á starfsendurhæfingu sem getur stuðlað að því að það dragi úr nýgengi örorku, sbr. umfjöllun um málaflokk 27.1. Eins og þar er lýst hefur aukin áhersla á snemmtæka íhlutun leitt til þess að þeim sem fá greiddan endurhæfingarlífeyri hefur fjölgað en að sama skapi aukast líkur á að fleiri einstaklingar geti til lengri tíma fram­fleytt sér sjálfir, að hluta eða að öllu leyti, með þátttöku á vinnumarkaði. Er það í samræmi við áherslur í stjórnarsáttmála um bætta afkomu örorkulífeyrisþega og aukna þátttöku þeirra á vinnumarkaði sem og velsældaráherslur ríkisstjórnarinnar um virkni í námi og starfi, auk þess sem það styður við heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna nr. 4 og nr. 8 um menntun fyrir öll og góða atvinnu og hagvöxt. Samhliða því að efla þau þjónustuúrræði sem ætluð eru til að styðja fólk til virkni, sérstaklega þátttöku á vinnumarkaði, hefur greiðslutímabil endur­hæfingarlífeyris verið lengt úr þremur árum í allt að fimm ár en þannig er talið að stuðla megi að því að fleiri einstaklingar nái bata og gefist tækifæri til þátttöku á vinnumarkaði í stað þess að vera metnir óvinnufærir og fá greiddar örorkubætur til lengri tíma, jafnvel varanlega.

Stefnt er að því að leggja fram frumvarp til laga um starfsendurhæfingu og greiðslur vegna starfsgetumissis og að samhliða því verði lagðar til breytingar á lögum um almanna­tryggingar og lögum um félagslega aðstoð en í þeim frumvörpum verður lagt til að stuðst verði við sam­þætt sérfræðimat á vinnugetu þar sem litið verði til getu einstaklinga til að framfleyta sér, eins og nánar er lýst í fjármálaáætlun 2023–2027.

Áhættuþættir

Helsti áhættuþátturinn felst í því að ekki náist samstaða um fyrirhugaðar breytingar á greiðslu- og þjónustukerfi almannatrygginga vegna örorku og skertrar starfsgetu. Frekari fjölgun innflytjenda sem enda á örorku, sem af einhverjum ástæðum hafa ekki áunnið sér rétt til lífeyris í fyrra búsetu- eða starfslandi, er einnig áhættuþáttur.

Markmið og mælikvarðar

Markmið
HM
Mælikvarðar
Staða
 2022

Viðmið 2024
Viðmið 2028
Auka áherslu á starfs­endurhæfingu og jafna kynjadreifingu.
 
1.3
Hlutfall einstaklinga sem fá greiddan endurhæfingar­lífeyri sem hlutfall af mannfjölda 18–66 ára.
1,2% af mannfjölda
Karlar: 0,9%
Konur: 1,6%
Karlar: 0,9% Konur: 1,6%
Karlar: 0,8% Konur: 1,4%
1.3
Hlutfall þeirra sem hætta í endurhæfingu og fá ekki örorkubætur innan eins árs eftir að greiðslum endur­hæfingarlífeyris lýkur.
65%
66%
68%
Bæta stuðning við verst setta einstaklinga í hópi öryrkja.
1.3
Árlegur fjöldi sem hlutfall af mannfjölda 18–66 ára örorku- og endurhæfingar­lífeyrisþega sem hefur ekki áunnið sér full réttindi í almannatryggingum og þarf á fjárhagsaðstoð frá sveitarfélögum að halda.
60 einstaklingar eða 0,02%
0,015%
 
0,01%
 
1.3
Hlutfall örorku- og endur­hæfingarlífeyrisþega sem hafa minna en 50.000 kr. á mánuði í aðrar tekjur en bætur almannatrygginga.
38,1%
36%
30%

Mælikvarði um hlutfall endurhæfingarlífeyrisþega af mannfjölda er nú kynskiptur og hefur mismunandi viðmið verið sett milli kynja sem miða að því að draga úr kynjadreifingu en konur hafa verið allt að tveir þriðju hlutar hópsins. Markmiðinu á að ná með aukinni áherslu á starfs­endurhæfingu og snemmtæka íhlutun sem er liður í heildarendurskoðun örorkulífeyris­kerfisins. Þá virðist hámarki í fjölgun hafa verið náð eftir að áhersla varð á endurhæfingu og er því gert ráð fyrir að viðmið verði óbreytt 2024 miðað við síðasta ár en fari svo lækkandi þar sem áhrifa af innleiðingu ICF-mats verði farið að gæta þegar líður á tímabilið.

27.3 Málefni fatlaðs fólks

Verkefni

Félags- og vinnumarkaðsráðherra fer með yfirstjórn málaflokksins en almenn og sértæk þjónusta við fatlað fólk er fyrst og fremst á hendi sveitarfélaganna sem bera ábyrgð á fram­kvæmd og skipulagi þjónustunnar. Málaflokkurinn snýr að þjónustu við fatlað fólk samkvæmt lögum nr. 38/2018, um þjónustu við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir, sem lúta að þeim réttindum fatlaðs fólks að það eigi kost á bestu þjónustu sem unnt er að veita á hverjum tíma til að koma til móts við sértækar stuðningsþarfir þess. Lögin byggjast á hugmyndafræðinni um sjálfstætt líf sem er grunnstef í samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks sem íslensk stjórnvöld fullgiltu árið 2016. Lögð er áhersla á að meta einstaklingsbundnar stuðningsþarfir, frumkvæðisskyldu stjórnvalda og að tryggja að jafnræðisreglan sé virt.

Á vegum félags- og vinnumarkaðsráðuneytisins er starfrækt réttindagæsla fyrir fatlað fólk sem ætlað er að tryggja einstaklingum viðeigandi stuðning við að gæta réttinda sinna og tryggja að sjálfsákvörðunarréttur sé virtur. Undir ráðuneytið heyrir einnig Þjónustu- og þekkingarmiðstöð fyrir blinda, sjónskerta og einstaklinga með samþætta sjón- og heyrnar­skerðingu sem veitir sértæka þjónustu á landsvísu.

Í stjórnarsáttmála ríkisstjórnar Íslands er kveðið á um að samningur Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks skuli lögfestur. Þar sem lög um málefni fatlaðs fólks með langvarandi stuðningsþarfir heyra undir félags- og vinnumarkaðsráðuneytið verður það m.a. hlutverk ráðu­neytisins að tryggja farsæla framkvæmd þjónustu á grundvelli samningsins.

Helstu áskoranir

Stefna í málefnum fatlaðs fólks tekur mið af hugmyndafræði og grunngildum, sem gera kröfu um eitt samfélag fyrir öll, jöfn tækifæri og lífskjör, algilda hönnun og valdeflingu sem leið fyrir fatlað fólk til að vera við stjórnvölinn í eigin lífi. Þörf er á breytingum á framkvæmd og áherslum í þjónustu í kjölfar lögfestingar samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks. Á árinu 2022 var skipuð verkefnisstjórn í breiðu samráði til að hefja gerð landsáætlunar um innleiðingu samningsins.

Aðrar áskoranir eru fólgnar í því að stuðla stöðugt að auknum mannréttindum, virkni, atvinnuþátttöku og menntun.

Fatlaðir einstaklingar eru í viðkvæmari stöðu gagnvart mismunun, fordómum og ofbeldi en ófatlaðir. Konur með fötlun eru útsettari fyrir tvöfaldri mismunun vegna fötlunar og kyn­ferðis þar sem þær verða m.a. fremur fyrir ofbeldi en aðrar konur og fatlaðir karlar. Hafa verður viðkvæma stöðu fatlaðs fólks í forgrunni við stefnumörkun og útfærslu aðgerða í mála­flokknum.

Tækifæri til umbóta

Í anda velsældaráherslna ríkisstjórnarinnar er mikilvægt að horfa til nýsköpunar, m.a. við mótun viðhorfa, skipulags, þróunar ferla og tæknilausna af ýmsu tagi til að mæta þeim áskorunum sem fyrr voru nefndar.

Velsældaráherslur ríkisstjórnarinnar um andlegt heilbrigði og virkni í námi og starfi falla vel að áskorunum í þjónustu við fatlað fólk. Markmiðið er að gera fötluðu fólki kleift að lifa sjálfstæðu lífi og er það m.a. gert með því að tryggja aðgengi til jafns við aðra, hvort sem um er að ræða aðgengi að manngerðu umhverfi, samgöngum, þjónustu, upplýsingum eða mögu­leikum til tjáskipta, sem auðvelda samfélagsþátttöku þess og virkni í daglegu lífi. Velsældar­áherslur ríkisstjórnarinnar um betri samskipti við almenning, auk þeirrar áherslu sem lögð er á samráð við notendur í samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks, falla einnig vel að kröfum fatlaðs fólks um að taka þátt í ákvörðunum og stefnumörkun er varðar málefni fatlaðs fólks frá upphafsstigum.

Með gerð landsáætlunar um innleiðingu samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks er lögð áhersla á að samráð verði haft við notendur, hagsmunaaðila og aðra þá sem vilja leggja áætluninni lið frá upphafsstigum. Unnin verður aðgerðaáætlun þar sem skilgreind verða þau verkefni sem eru líkleg til þess að mæta þeim skuldbindingum sem í samningnum felast og verða aðgerðir kostnaðar- og ábatagreindar. Áætlunin skiptist í tvennt, þ.e. tekur til áranna 2022–2024 og 2025–2030. Landsáætlun verður leiðarvísir fyrir ríki, sveitarfélög, hagsmuna­samtök, notendur og almenning um hvert skuli stefnt í þjónustu við fatlað fólk. Að auki var skipaður starfshópur um aukin tækifæri til náms og starfa fatlaðs fólks í lok árs 2022 og unnið er að innleiðingu rafrænna lausna fyrir fatlað fólk.

Áhættuþættir

Helstu áhættuþættir þegar tryggja þarf gæði almennrar og sértækrar þjónustu við fatlað fólk er sterkur og stöðugur mannauður sem og fjármögnun í samræmi við þau markmið sem sett eru. Við gerð landsáætlunar og lögfestingu samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks felst áhætta í því að forgangsraða þarf aðgerðum og fjármagna þær, tryggja virka þátttöku viðeigandi aðila og að nauðsynlegar lagabreytingar verði að veruleika.

Markmið og mælikvarðar

Markmið
HM
Mælikvarðar
Staða 2022
Viðmið 2024
Viðmið 2028
Að veitt verði öryggisþjónusta í samræmi við gildandi lög og alþjóðlega viðurkennda mann­réttindasamninga.
 
Lokið við stefnumótun.
-
Árið 2023
-
 
Samþykkt lög um öryggisþjónustu.
-
Árið 2023
-
 
Sérhæft húsnæði tilbúið til notkunar.
-
-
Árið 2026
Að nýsköpun og tækni tryggi aðgengi fatlaðs fólks að upplýsingasamfélaginu og auki þannig möguleika þess til sjálfstæðs lífs.
16.6
Fjöldi sveitarfélaga sem hafa haldið námskeið FRN um nýsköpun og tækni í velferðarþjónustu.
0
8
24
16.6
Fjöldi sveitarfélaga sem hafa samþykktar nýsköpunaráætlanir.
3
8
24

27.4 Aðrar örorkugreiðslur

Undir þennan málaflokk falla aðrar greiðslur ótaldar vegna laga um almannatryggingar, nr. 100/2007, sem ekki falla undir málaflokka 27.1 og 27.2. Fyrst og fremst er um einskiptis­greiðslur að ræða vegna vaxtakostnaðar og kostnaðar vegna læknisvottorða. Að öðru leyti er eðli málaflokksins með þeim hætti að ekki verður fjallað um markmið og mælikvarða varðandi starfsemi hans.

27.5 Jöfnun á örorkubyrði almennra lífeyrissjóða

Fjárframlag hefur verið veitt úr ríkissjóði til að jafna mismunandi örorkubyrði lífeyrissjóða frá árinu 2007 í samræmi við lög nr. 113/1990, um tryggingagjald. Frá árinu 2010 hefur framlagið numið 0,325% af gjaldstofni tryggingagjalds og runnið til allra lífeyrissjóða.

Framlaginu hefur verið skipt á milli sjóðanna að teknu tilliti til hlutdeildar hvers lífeyrissjóðs í heildarörorkulífeyrisgreiðslum allra lífeyrissjóða á næstliðnu ári og hlutdeildar hvers lífeyris¬sjóðs í framtíðarskuldbindingum lífeyrissjóða til greiðslu örorkulífeyris umfram 10% af heildarskuldbindingum.

Ástæða þykir nú til að taka þetta fyrirkomulag til endurskoðunar enda hafa forsendur breyst umtalsvert frá árinu 2007. Þörf lífeyrissjóðanna til jöfnunar örorkubyrði hefur minnkað, fjárhagsstaða sjóðanna almennt batnað á síðari árum og örorkubyrðin ásamt skuldbindingum vegna maka- og barnalífeyris er nú almennt innan þeirra marka sem lágmarkstryggingavernd sjóðanna miðast við. Þá hefur vægi skuldbindinga vegna örorkulífeyris af heildarlífeyrisskuldbindingu farið lækkandi. Loks er enn fremur til þess að líta að gerðar hafa verið breytingar á tryggingafræðilegum forsendum við mat á réttindum sjóðfélaga í lífeyrissjóðum á þann veg að lífslíkur eru nú metnar á grundvelli félagaþýðis hvers sjóðs um sig, sem haft hefur mismunandi áhrif á tryggingafræðilega stöðu einstakra sjóða, auk þess sem teknar hafa verið upp nýjar lífslíkutöflur. Óhjákvæmilegt er að líta til áhrifa þessara breytinga í tengslum við ívilnanir úr ríkissjóði gagnvart lífeyrissjóðunum. 

Í ljósi bættrar stöðu lífeyrissjóðanna frá 2007 má telja að tímabært sé að endurskoða hlutdeild þeirra í tryggingagjaldinu og hækka samsvarandi hlut lífeyris- og slysatrygginga en engin hækkun var gerð á almenna tryggingagjaldinu á þeim tíma sem jöfnunarframlagið kom til framkvæmdar. Hlutdeild lífeyris- og slysatrygginga í tryggingagjaldinu skertist hins vegar í sama mæli. Þetta þýðir að sá hluti tekna af tryggingagjaldinu sem renna átti til almannatrygginga dróst saman samhliða greiðslum til lífeyrissjóðanna.
Er nú vilji til þess að endurskoða jöfnunarframlagið til að styðja við þær breytingar sem stjórnvöld áforma að gera á örorkulífeyriskerfinu. Breytingarnar felast meðal annars í sérstakri áherslu á stuðning fyrr í veikindaferlinu en nú í þeim tilgangi að auka líkur á árangursríkri endurhæfingu og endurkomu á vinnumarkað. Þá er vilji stjórnvalda að í samvinnu við lífeyrissjóðina verði tekið upp samræmt mat á orkutapi í almannatrygginga- og lífeyrissjóðakerfinu.

Verði þessar breytingar að veruleika standa vonir til að hægja muni á þörf fyrir greiðslur vegna skertrar starfsgetu hvort sem er úr almannatrygginga- eða lífeyrissjóðakerfinu. 


Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Yfirlit

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum